Hópur Alþingismanna lagði í dag fram þingsályktunartillögu um að ríkisstjórnin ráði hæfan og óháðan sérfræðiaðila til að gera úttekt á álitsgerðum erlendu matsfyrirtækjanna þriggja um lánshæfi íslenskra fyrirtækja stofnana fyrir og eftir hrunið 2008. Þingmennirnir sem standa að ályktunartillögunni eru þau Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Lilja Mósesdóttir, Davíð Stefánsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Lúðvík Geirsson, Magnús Orri Schram og Ólína Þorvarðardóttir.

Vanmátu áhættuna fyrir hrun

Í áðurnefndri úttekt á að felast hlutlægt mat á gæðum álitsgerða matsfyrirtækjanna Moody’s, Fitch Ratings og Standard og Poor’s og áhrifum þeirra á ákvarðanatöku opinberra aðila og einkaaðila. Í greinargerð segir að matsfyrirtækin hafi vanmetið þá áhættu sem fjármálafyrirtæki tóku fyrir árið 2007 og þá hafi viðbrögð matsfyrirtækjanna eftir hrun verið gagnrýnd. „Mörgum þykir að fyrirtækin séu fjármögnuð og starfi með óeðlilegum hætti, auk þess sem þau beri litla ábyrgð á störfum sínum. Matsfyrirtækin njóta verklauna frá sömu aðilum og þau meta þannig að hagsmunaárekstrar eru að margra mati innbyggðir í starfsemi þeirra. Ákvarðanir matsfyrirtækjanna hafa ekki aðeins áhrif á fjármálamörkuðum, heldur hafa þau einnig pólitísk áhrif á stefnumörkun stjórnvalda,” segir í greinargerðinni.

Fyrirtækin þurfa gagnrýnið aðhald

„Íslensk stjórnvöld hafa sérstaka ástæðu til að fara yfir álitsgerðir fyrirtækjanna fyrir og eftir bankahrun. Hátt lánsmat auðveldaði bönkum að fá lánað fé á erlendum mörkuðum, þótt lítil innistæða hafi reynst fyrir því þegar á reyndi. Í kjölfar hrunsins hafa fyrirtækin lækkað lánshæfismatið harkalega og blandað sér í Icesave-deiluna. Eins og önnur ríki er Ísland að mörgu leyti í erfiðri stöðu gagnvart matsfyrirtækjunum, enda ráðast kjör og framboð á erlendu fjármagni að miklu leyti af áliti þeirra. Það er því mikilvægt að gera vandaða úttekt á starfi matsfyrirtækjanna hér á landi, enda þurfa þau gagnrýnið aðhald eins og aðrir.“