Ellefu þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa óskað eftir því að iðnaðar- og viðskiptaráðherra flytji Alþingi skýrslu um úttekt á hagrænum áhrifum kvikmyndagerðar á Íslandi með sérstakri áherslu á svæðisbundin áhrif eigi síðar en í mars 2015.

Þá segir í beiðninni að kallað sé eftir skýrslu þar sem skoðuð verði sérstaklega þau hagrænu áhrif, bein og afleidd, sem kvikmyndagerð hefur á þau svæði og héruð þar sem upptökur fara fram. Þá sé mikilvægt að kortleggja hvaða áhrif stór kvikmyndaverkefni geti haft á svæði þar sem upptökur fara fram. Einnig þurfi skýrsluhöfundar að skoða hvernig hægt verði að stuðla að aukningu á verkefnum af þessu tagi sem tekin eru úti á landi með tilheyrandi umfangi í stað þess að áherslan sé á Reykjavíkursvæðið.

Þeir þingmenn sem óskuðu eftir skýrslunni eru Guðlaugur Þór Þórðarson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Brynjar Níelsson, Haraldur Benediktsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Ásmundur Friðriksson, Valgerður Gunnarsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Karl Garðarsson og VIlhjálmur Árnason.