Vogunarsjóðsstjórinn David Einhorn vill að Steve Ballmer víki úr forstjórastóli Microsoft. Að mati Einhorn er Microsoft fast í fortíðinni og telur veru Ballmers vera meginorsök þess að hlutabréf félagsins hafa lítið sem ekkert hækkað í verði á síðustu árum. Reuters fréttastofa greinir frá og hafa orð Einhorns vakið mikla athygli.

Einhorn vakti fyrst athygli þegar hann varaði við fjárhagsstöðu Lehman Brothers, áður en bankinn féll. Ummæli vogunarsjóðsstjórans um forstjóra Microsoft eru talin endurspegla það sem fjárfestar hafa sagt og hugsað um nokkurra ára skeið.

Microsoft var stærsta bandaríska félagið að markaðsvirði á síðari hluta tíunda áratugar síðustu aldar. Síðan þá hafa bæði Apple og IBM tekið fram úr Microsoft að markaðsvirði. Verð á hlutabréfum í félaginu hafa lítið breyst á undanförnum árum, en hafa lækkað um 6% á síðustu tveimur vikum. Lækkunin er í kjölfar 8,5 milljarða dollara kaupa Microsoft á Skype.