Þrotabú föllnu bankanna eru í síauknum mæli að verða hirslur fyrir reiðufé, eftir því sem kröfurnar greiðast upp, að sögn Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, en hann var einn af ræðumönnum á fundi Bresk-íslenska viðskiptaráðsins um ástand og horfur í íslenskum efnahagsmálum. Segir hann í samtali við Viðskiptablaði að sér þætti það óforsvaranlegt að árið 2014 liði án þess að svör fengjust við nokkrum grundvallarspurningum, sem hafi hangið yfir þessu máli árum saman. „Spurningum eins og hvort það sé nokkur von um að það finnist lausn í samstarfi við slitabú bankanna um að veita þeim undanþágu frá gjaldeyrishöftum. Mér finnst engin ástæða til þess að láta þá spurningu líða inn í eilífðina og ég sé enga ástæðu fyrir öðru en að við fáum botn í hana á þessu ári.“

Hann hafi því lagt það fyrir þá ráðgjafa, sem ráðnir voru í sumar, að fá þyrfti svör á þessu ári hvort það væri unnt að skapa skilyrði fyrir lausn í fyrsta lagi varðandi slitabúin, en einnig út af aflandskrónunum. „Ég er bjartsýnn á að við munum stíga stór skref á þessu ári til þess að minnsta kosti að átta okkur á því hvað er raunhæft að geti gerst í málefnum slitabúanna og vonandi líka varðandi aflandskrónuvandann, sem hefur verið eilítið á jaðrinum hjá okkur að undanförnu og sennilega að ósekju.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .