Lilja Alfreðsdóttir, þingmaður og varaformaður Framsóknarflokksins, skrifar grein í nýjasta hefti Þjóðmála þar sem hún kallar eftir stofnun Stöðugleikasjóðs, í anda norska olíusjóðsins, til að stuðla að auknum stöðugleika til langs tíma og draga úr hagsveiflum.

Í greininni segir: „Ísland er lítið opið hagkerfi, þar sem útflutningur landsins nemur um 55% af landsframleiðslu. Gjaldeyristekjur Íslands koma frá ríkulegum náttúruauðlindum sem landið er gæfuríkt að búa að. Þrjár af fjórum meginstoðum útflutnings byggja á náttúruauðlindum landsins, ferðaþjónusta, sjávarútvegur og orkuiðnaður.“

Hún segir að til lengri tíma litið væri hægt að fjármagna slíkan sjóð með framlögum frá útflutningsgreinunum, þ.e. auðlindarentu frá fyrirtækjum í sjávarútvegi og ferðaþjónustu, arðgreiðslum frá orkufyrirtækjum eða gjaldi fyrir afnot af auðlindinni. Auk þess væri hægt að fjármagna sjóðinn með beinu framlagi úr ríkissjóði þegar vel árar og þannig væri sjóðurinn nýttur til að jafna út ríkisfjármálin að hennar mati.