Mikill viðsnúningur varð á rekstri bílaumboðsins Brimborgar á síðasta ári. Hagnaður bílaumboðsins nam 868 milljónum króna í fyrra en árið áður nam tap félagsins 330 milljónum króna. Brimborg var einnig rekin með tapi árin 2019 og 2018. Árið 2019 nam tap félagsins 671 milljón króna og árið 2018 tapaði félagið 368 milljónum króna. Fyrir þessa þriggja ára taphrinu hafði Brimborg hagnast um 260 milljónir árið 2017 og um 718 milljónir árið 2016. Yfir umrætt tímabil er því afkoma bílaumboðsins alls jákvæð um 477 milljónir króna.

Tekjur Brimborgar námu 23 milljörðum króna á síðasta ári og jukust um tæplega sjö milljarða króna frá fyrra ári, eða 44%. Til samanburðar námu tekjur bílaumboðsins ríflega 18 milljörðum árið 2019 og ríflega 21 milljarði árið 2018. Árið 2017 velti félagið tæplega 21 milljarði og árið 2016 nam veltan rétt ríflega 18 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 2,1 milljarði króna á síðasta ári en árið áður nam EBITDA 883 milljónum króna.

Eignir Brimborgar námu tæplega 15 milljörðum króna í lok síðasta árs en ári áður námu eignir rúmlega 10 milljörðum króna. Eigið fé jókst einnig verulega milli ára, úr 1,3 milljörðum króna árið 2020 í 4,1 milljarð árið 2021. Meginþorri eiginfjár, eða 3,5 milljarðar, er færður til bókar sem sérstakur endurmatsreikningur. Í skýringu í ársreikningi félagsins segir að þar sem markaðsverð fasteigna sé talið verulega hærra en bókfært verð sé bókfært verð þeirra í ársreikningi 2021 hækkað og fært til samræmis við áætlað markaðsverð. Fasteignir félagsins séu endurmetnar og byggi hið endurmetna verð á verðmati frá fasteignasala, að frádreginni varúðarniðurfærslu. Matsbreytingin sé færð á sérstakan endurmatsreikning meðal eigin fjár og á tekjuskattsskuldbindingu.

Eiginfjárhlutfall var því 28% í lok síðasta árs. Skuldir félagsins námu tæplega 11 milljörðum króna í lok síðasta árs og jukust um tæplega tvo milljarða frá fyrra ári. Handbært fé nam 341 milljón króna í byrjun árs 2021 og stóð í 205 milljónum króna í lok árs.

Jákvæðar horfur

Í ársskýrslu Brimborgar kemur fram að undanfarin ár hafi verið unnið að „árangursríkum skilvirkniverkefnum" sem byggð hafi verið á nýju viðskiptalíkani. Þetta hafi skilað sér í því að sölu- og stjórnunarkostnaður lækkaði um 849 milljónir eða 22,1% árið 2020, auk þess sem birgðir hafi einnig lækkað umtalsvert á því ári. Það hafi svo lagt grunninn að sterku ári 2021 þar sem tekjuvöxtur var 43,6%.

Framboðsskortur, sérstaklega á nýjum bílum og nýjum atvinnutækjum, hafi farið að gera vart við sig seinni hluta árs 2020 og því hafi verið brugðið á það ráð að bæta í pantanir og auka við birgðir. Það hafi svo skilað sér í tvöfalt meiri söluaukningu á árinu 2021 hjá Brimborg en á markaði.

Í ársskýrslunni segir jafnframt að heilt yfir séu horfur jákvæðar á mörkuðum Brimborgar, hvort sem er útleiga bíla eða sala nýrra og notaðra bíla, nýrra og notaðra atvinnutækja, varahluta, þjónustu og hjólbarða. Því sé líklegt að eftirspurn verði góð, ekki síst á bílamarkaði þegar orkuskiptin séu tekin með í reikninginn sem kalli á aukna endurnýjun. Birgðastaða og pantanapípa Brimborgar á nýjum bílum, nýjum atvinnutækjum, varahlutum og hjólbörðum sé mjög vel í stakk búin til að taka við aukinni eftirspurn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .