*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 29. nóvember 2004 10:39

VÍS kaupir Vörð Vátryggingafélag hf.

Ritstjórn

Vátryggingafélag Íslands hf. hefur keypt Vörð Vátryggingafélag hf. og tekur við rekstri þess í dag. Kaupsamningar voru undirritaðir í gær og er kaupverðið trúnaðarmál. Seljandi Varðar er Hringur hf., aðaleigandi þess félags er Baugur Group hf. Kristján B. Ólafsson, framkvæmdastjóri Varðar, hefur látið af störfum. Ásgeir Baldurs, áður forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá VÍS, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Varðar tímabundið þar til nýr framkvæmdastjóri verður ráðinn.

Vörður Vátryggingafélag verður áfram rekið sem sjálfstætt félag með starfsemi á landsvísu og höfuðstöðvar við Skipagötu á Akureyri. Starfsmenn Varðar eru alls 22, auk umboðsmanna og sölumanna víðs vegar um land. Markaðshlutdeild Varðar á landsvísu er um 1,5%.

Vörður Vátryggingafélag á sér langa og merka sögu með rætur í Vélbátasamtryggingu Eyjafjarðar sem stofnuð var 1926, síðar Vélbátatryggingu Eyjafjarðar. Félagið sérhæfði sig í báta- og skipatryggingum og aflaði sér mikillar reynslu og þekkingar á þeim markaði. Nafninu var breytt í Vörður Vátryggingafélag árið 1996 og upp úr því fór félagið að bjóða alhliða þjónustu í fyrirtækja- og einstaklingstryggingum.

Vörður hefur vaxið verulega undanfarin misseri, einkum nú á árinu 2004. Félagið var rekið með tapi á árinu 2003 og líklegt er að tap verði á rekstrinum í ár.

Hvers vegna kaupir VÍS?
· Staða Varðar í skipatryggingum stendur á gömlum merg. VÍS hefur mun minni markaðshlutdeild í skipatryggingum en keppinautarnir á tryggingamarkaðinum en styrkir nú stöðu bæði Varðar og VÍS-samstæðunnar með kaupum á Verði og áformum um frekari markaðssókn.

· Eigendur og stjórnendur VÍS hafa lengi velt fyrir sér möguleikum á að reka annað tryggingafélag innan VÍS-samstæðunnar með aðrar áherslur í starfsemi, markaðssókn og tryggingaframboði en VÍS er þekkt fyrir. Tækifæri gefst til að hrinda þessum hugmyndum í framkvæmd nú með því að kaupa Vörð Vátryggingafélag. Vörður verður ,,öðru vísi tryggingafélag" og sýnir það í verki síðar!

· Vörður er áhugaverður fjárfestingakostur. Kaupin á félaginu eru í samræmi við þau markmið VÍS að vaxa og dafna frekar á sviðum trygginga-, fjármála- og öryggisþjónustu segir í tilkynningu félagsins.

Samkeppnisstofnun og Fjármálaeftirlitið

VÍS óskaði í gær eftir tilskildu leyfi frá Fjármálaeftirlitinu vegna kaupanna á Verði. Málið verður sömuleiðis lagt fyrir Samkeppnisstofnun.

Ný stjórn Varðar
Kjörin var ný stjórn Varðar Vátryggingafélags á hluthafafundi í gær, 28. nóvember. Hana skipa:

Helgi Jóhannesson, framkvæmdastjóri, Akureyri, formaður
Andri Teitsson, framkvæmdastjóri, Akureyri
Rúnar Þór Sigursteinsson, viðskiptafræðingur, Akureyri
Guðrún Tinna Ólafsdóttir, viðskiptafræðingur, Reykjavík
Jónas Jóhannsson. útgerðarmaður, Þórshöfn