Grétar Þorsteinsson, forseti Alþýðusambands Íslands, telur að viðsemjendur í kjaraviðræðum ASÍ og Samtaka atvinnulífsins séu að ná saman um launakröfur. Hann gerir ráð fyrir því að það verði tilkynnt formlega um hádegisbil.

Fundað hefur verið stíft síðustu daga og segir Grétar varðandi launakröfurnar að landssamtök á vettvangi ASÍ standi sameiginlega að þeim gagnvart SA. Aðrar útfærslur á kjarasamningum verði i höndum hvers og eins.

Grétar tekur fram að samkomulag um launakröfurnar sé að sjálfsögðu með fyrirvara um að annað, sem eftir standi, gangi eftir. Hann á þó ekki von á öðru en að það náist. "Þetta er spurning um fáa daga," segir hann.

Hann leggur einnig áherslu á að ekki verði gengið frá kjarasamningum nema með myndarlegri aðkomu stjórnvalda. Hann telur líklegt að aðilar vinnumarkaðarins fundi með fulltrúum ríkisstjórnarinnar á morgun.