Vísitala neysluverðs í september 2007 er 276,7 stig og hækkaði um 1,32% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 247,8 stig, hækkaði um 1,14% frá ágúst. Þetta kemur fram í tilkynningu Hagstofunnar. Þessi hækkun er í takt  við spár greiningaraðila sem höfðu búist við að verðbólga tæki við sér á nýjan leik nú á haustmánuðum. Tólf mánaða verðbólga hefur í kjölfarið hækkað úr 3,4% í 4,2%.

Sumarútsölulok og hækkandi húsnæðisverð eru meðal helstu þátt sem draga verðbólguna upp. Til að mynda hækkaði verð á fötum og skóm um 13,6% Kostnaður vegna eigin húsnæðis jókst um 2,5% þar af voru 0,41% áhrif vegna hækkunar á markaðsverði húsnæðis en 0,06% vegna hækkunar vaxta. Verð á bensíni og olíum hækkaði um 3,2%.

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,2% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 1,1%. Fastskattavísitala neysluverðs hefur hækkað um 6,0% síðastliðna tólf mánuði. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,6% sem jafngildir 6,5% verðbólgu á ári.