Hlutabréf Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis (Spron) verða tekin til viðskipta í kauphöllinni á Íslandi á morgun og er félagið þar með það þrítugasta sem er skráð í Nordic Exchange á þessu ári. Spron er alhliða fjármálafyrirtæki sem veitir viðskipta- og fjárfestingarbankaþjónustu til einstaklinga, fyrirtækja og fagfjárfesta á höfuðborgarsvæðinu segir í tilkynningu.

Spron er leiðandi á íslenskum fjármálamarkaði hvað ánægju viðskiptavina varðar og leggur ríka áherslu á persónulega og góða þjónustu. Dótturfélög Spron eru Spron Verðbréf, Spron Factoring, Netbankinn og Frjálsi Fjárfestingarbankinn. Hjá Spron og dótturfélögum starfa um 250 manns. "

Það er okkur fagnaðarefni að bjóða fjármálafyrirtækið Spron velkomið í Kauphöllina.  Spron bætist við kraftmikla flóru fjármálafyrirtækja á íslenska markaðnum og það er ánægjulegt að sjá hvað fjármálafyrirtæki hafa dafnað vel hér. Við óskum Spron velfarnaðar á komandi tímum", segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar.“Við fögnum því að vera búin að ná þessum merka áfanga að verða skráð félag og sjáum í skráningunni  tækifæri fyrir Spron til þess að vaxa og dafna enn frekar.  Skráning í Kauphöll er mikill styrkur fyrir okkur og vonumst við til að eiga ánægjulegt samstarf við Kauphöllina í framtíðinni,” segir Guðmundur Hauksson, forstjóri Spron. Viðskiptalota hlutabréfa í Spron, sem hefur auðkennið Spron, er 5000. Félagið flokkast sem meðalstórt félag og tilheyrir fjármálageira.