Og fjarskipti ehf., eigandi Vodafone á Íslandi, tapaði 7,5 milljörðum króna árið 2008 og eigið fé félagsins var þá neikvætt um 1,2 milljarða króna. Vodafone var því tæknilega gjaldþrota um síðustu áramót.

Þar af nam tap af rekstri félagsins, 1,1 milljarði króna en rekstur Vodafone árið 2007 hafði skilað um tveggja milljarða króna hagnaði. Því var um þriggja milljarða króna viðsnúningur á rekstri Vodafone milli ára. Vodafone seldi vörur og þjónustu fyrir tæplega tólf milljarða króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í ársreikningi Og fjarskipta ehf.

Með þriðjungshlutdeild á farsíma- og internetmarkaði

Vodafone er 32,6 prósenta markaðshlutdeild á íslenskum farsímamarkaði og alls um 115 þúsund viðskiptavini í slíkri þjónustu hjá sér. Félagið er einnig með tæplega þriðjungshlutdeild á internet-markaðinum með rúmlega 27 þúsund viðskiptavini.Samt var 1.141 milljóna króna tap á rekstri Vodafone í fyrra.

Auk þess námu fjármagnsgjöld félagsins 6.670 milljónum króna og tap Vodafone fyrir skatta því um 7.800 milljarðar króna. Vegna tapsins var hægt að tekjufæra skatt upp á 333 milljónir króna sem dró lítillega úr heildartapi Vodafone.

Stjórnunarkostnaður 2,2 milljarðar króna

Þrátt fyrir að Vodafone hafi selt vörur og þjónustu fyrir um tólf milljarða króna á árinu 2008 var tap á rekstri félagsins. Þar nam hæst um sjö milljarða króna kostnaðarverð vegna seldra vara og þjónustu. Virðisrýrnun eigna félagsins nam um 2,5 milljörðum króna en hafði ekki verið nein árið 2007. Þá nam sölu- og markaðskostnaður um 1,5 milljarði króna.

Athygli vekur að stjórnunarkostnaður Vodafone var rúmir 2,2 milljarðar króna á síðasta ári.

Eigið fé Vodafone varneikvætt um 1,2 milljarða króna en hafði verið jákvætt um rúma sex milljarða króna í árslok 2007. Skuldir félagsins nema um 20,6 milljörðum króna og þar af eru skammtímaskuldir 12,4 milljarða króna. Þær þrefölduðust milli ára. Þar af voru vaxtaberandi skuldir um níu milljarðar króna.