Útgjöld erlendra ferðamanna til íslenskra fyrirtæka voru um 238 milljarðar króna á árinu 2012 samkvæmt mælingum á þjónustuviðskiptum. Vöxtur útgjalda var um 21% milli ára 2011-2012 en þegar tekið hefur verið tillit til verðlagsbreytinga þá var raunvöxtur um 14%.

Þetta kemur fram í árlegri samantekt Ferðamálastofu, Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum, sem birt hefur verið á vef stofnunarinnar. Þar kemur einnig fram að hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu var um 6% árið 2010 en frá árinu 2000 hefur hlutfall ferðaþjónustu verið á bilinu 4,4-6%.

Á föstu verðlagi hafa útgjöld erlendra ferðamanna aukist um tæplega 30% frá árinu 2009 til ársins 2012. Hér eru metin viðskipti erlendra ferðamanna við íslensk fyrirtæki, bæði hér á landi sem og erlendis. Útgjöld erlendra ferðamanna á Íslandi voru um 106 milljarðar króna á árinu 2012 eða um 15% hærri en árið 2011.

Fram kemur að hlutfall ferðaþjónustu í gjaldeyristekjum á árunum 2009-2012 var á bilinu 18,8% til 23,5% samkvæmt mælingum um útflutning vöru og þjónustu.  Þá námu vöru- og þjónustuskattar af ferðaþjónustu námu rúmum 15 milljörðum króna árið 2010.

Sjá skýrsluna í heild sinni.