Wow air kaupir fjórar nýjar Airbus A321 flugvélar beint frá framleiðanda. Listaverð vélanna er 55 milljarðar króna eða 459,6 milljón Bandaríkjadala. Skrifað var undir samninginn í dag á flugvélasýningunni Farnborough í Bretlandi og verða vélarnar afhentar árin 2017 og 2018.

Ungur 17 véla flugfloti

Stækkar flugfloti Wow air úr 11 í 17 vélar með þessum kaupum auk fyrri samninga sem áður hafa verið kynntir. Verða átta af vélunum alfarið í eigu flugfélagsins, en allar vélar þess eru frá Airbus.

Segir í fréttatilkynningu frá félaginu að flotinn sé ungur að árum, með meðalaldur um tvo og hálft ár. Skammt sé síðan þrjár nýjar Airbus breiðþotur voru keyptar og sætabil í vélunum sé 31-35 tommur, sem sé meira en hefðbundin farrými hjá flestum flugfélögum þar sem bilið er oftast 29-31 tomma.