Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, er í ítarlegu viðtali í bókinni 300 stærstu sem kom út fyrir skömmu. Áður en hún tók við stjórntaumunum í Viðskiptaráði hafði hún starfað á vettvangi stjórnmála um langt skeið, lengst af sem aðstoðarmaður fjármálaráðherra.

Frá því að Covid-19 heimsfaraldurinn skall á snemma árs 2020 hér á landi kynntu stjórnvöld reglulega til sögunnar ýmsar aðgerðir fyrir fyrirtæki og einstaklinga til að mæta afleiðingum faraldursins. Meðal aðgerða sem stóðu fyrirtækjum til boða má nefna lokunarstyrk, tekjufallsstyrk, stuðningslán, laun á uppsagnarfresti og hlutabótaleiðina. Svanhildur kveðst heilt yfir ánægð með aðgerðir stjórnvalda til handa fyrirtækjum og að aðildarfélagar Viðskiptaráðs virðist flestir hverjir ánægðir með aðgerðirnar.

„Hlutabæturnar skiptu til að mynda gríðarlega miklu máli til þess að halda ráðningarsambandinu gangandi og halda áfram með skertri starfsemi, svo fyrirtækin lognuðust ekki alveg út af. Það nýttu mjög mörg fyrirtæki sér hlutabótaleiðina í byrjun, sem var alls ekki óeðlilegt því stjórnvöld hvöttu þau einfaldlega til þess. Skilaboðin voru að það ætti að vernda störf og framfærslu fólks og fyrirtækin voru beðin um að taka þátt í því."

Síðar hafi þó umræðan snúist í þá átt að fjárhagslega sterk fyrirtæki væru að setja starfsfólk á hlutabætur og þau sökuð um að misnota þetta úrræði. „Mörg stórfyrirtæki sem settu starfsfólk á hlutabætur meðan staðan var mjög óljós enduðu á að greiða bæturnar til baka þegar í ljós kom að rekstur þeirra gekk betur en óttast hafði verið í upphafi faraldurs. Þegar hlutabótaleiðin var sett á laggirnar ríkti mikil óvissa um hve lengi faraldurinn myndi geisa. Auk þess var óljóst hvort flutningar á heimsvísu myndu hreinlega stöðvast og hvort fólki væri yfir höfuð óhætt að mæta til vinnu. Mörg fyrirtæki óttuðust að ástandið yrði svo slæmt að enginn neytandi myndi treysta sér til að kaupa neitt annað en allra nauðsynlegustu vörur og þjónustu."

Þótti Svanhildi því umræðan um meinta misnotkun ákveðinna fyrirtækja á úrræðinu nokkuð óvægin. „Það er ekkert óeðlilegt að setja skilyrði fyrir því að fyrirtæki gætu nýtt þetta úrræði. En það voru engin slík skilyrði sett í byrjun og fyrirtækin voru einfaldlega að gera það sem stjórnvöld báðu þau um að gera, í stað þess að grípa til þeirra aðgerða sem fyrirtæki í óvissu hafa alla jafna gert - uppsagna. Þá hefði mikill fjöldi fólks farið á atvinnuleysisskrá samtímis með miklum tilkostnaði fyrir hið opinbera og samfélagið í heild sinni. Mér fannst hlutabótaleiðin því heilt yfir mjög vel heppnuð aðgerð. Uppsagnarstyrkirnir lágu einnig undir gagnrýni en þeir voru í raun leið til þess að fyrirtæki gætu skipulagt sig. Í stað þess að sigla í þrot við það að greiða starfsmönnum laun á uppsagnarfresti, gátu þau staðið undir því að segja fólki upp en haldið samt áfram mjög takmarkaðri starfsemi. Markmiðið var að það yrði ekki unnið þannig tjón á fyrirtækjum í landinu að kröftug viðspyrna yrði ómöguleg. Í dag virðist þetta hafa verið hárrétt ákvörðun sem reynst hafi vel," segir Svanhildur.

Hún telur jafnframt það hafa verið rétta ákvörðun að ganga ekki lengra og setja meira fé í þessar aðgerðir, eins og einhverjir hafi kallað eftir, til að bregðast við ástandi sem var ekki orðið til. „Þetta var ákveðin jafnvægislist á milli þess að gera nóg en ekki of mikið."

Nánar er fjallað um málið í bókinni 300 stærstu, sem kom út nýlega. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .