Sýn er stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins árið 2022 þegar horft er til veltu. Tekjur af fjölmiðlarekstri voru 8,6 milljarðar króna og drógust saman um 8% milli ára. Þetta kemur fram í 500 stærstu.

Áskrifendur geta lesið blaðið hér.

Næststærst er Ríkisútvarpið með 7,9 milljarða í tekjur en ríkisframlag nam 5,1 milljarði króna, eða 65% af tekjum. Þrátt fyrir ríkistekjurnar tapaði opinbera hlutafélagið 164 milljónum króna árið 2022.

Síminn er þriðji stærsti fjölmiðilinn með 6,7 milljarða veltu. Hvorki Sýn né Síminn gefa upp afkomuna af fjölmiðlun í ársreikningum sínum.

Heimildin og Kjarninn töpuðu samtals 51 milljón árið 2022.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Myllusetur ehf., útgáfufélag Viðskiptablaðsins, Fiskifrétta og Frjálsrar verslunar, hefur aðeins skilað tapi einu sinni frá stofnun árið 2009.
© BIG (VB MYND/BIG)

Myllusetur hagnaðist eitt

Myllusetur ehf., útgáfufélag Viðskiptablaðsins, Frjálsrar verslunar og Fiskifrétta, hagnaðist um 6 milljónir króna á árinu 2022. Myllusetur er eini íslenski fjölmiðilinn sem hagnaðist af reglulegum rekstri á árinu 2022.

Birtingur hagnaðist um 33,2 milljónir króna. Félagið tekjufærði hins vegar 44,5 milljónir vegna niðurfellingar á skuld. Því nam rekstrartapið 11,2 milljónum króna.

Félagið fékk einnig niðurfellda skuld árið 2021 upp á 135,2 milljónir króna. Félagið tapaði samanlagt 362 milljónum króna á árunum 2019-2022 þrátt fyrir skuldaniðurfellingarnar.

Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, skilaði 335 milljóna króna tapi í fyrra en hagnaðist um 110 milljónir króna árið áður.

Félagið gerði töluverðar breytingar á uppgjörsaðferð samstæðunnar á árinu og því er viðsnúningurinn mun minni.

Prentsmiðjan Landsprent var færð undir móðurfélagið Þórsmörk en afkoma Árvakurs er 100 milljónum lakari í ár vegna þess. Landsprent skilaði 195 milljóna hagnaði 2021.

Stundin og Kjarninn sameinuðust í lok desember undir merkjum Heimildarinnar í Sameinaða útgáfufélaginu ehf. Því var rekstur félaganna aðskilinn árið 2022.

Samanlagt var tap miðlanna tveggja 51 milljón króna árið 2022 en 6 milljóna tap árið áður. Árið 2022 var langmesta tap Stundarinnar en rekstur hennar var mun betri en Kjarnans frá stofnun.

Nánar er fjallað um fjölmiðla í bókinni 500 stærstu sem kom út miðvikudaginn 6. desember. Hægt er að kaupa bókina hér.