Meðal tíu stærstu banka heims, sé horft til heildareigna í lok síðasta árs, eru tveir franskir, tveir bandarískir og einn breskur. Frjáls verslun tók saman listann fyrir bókina 300 stærstu, sem kom út í síðasta mánuði. Eftirfarandi eru bankarnir sem verma 6.-10. sætin ásamt stærsta banka Norðurlandanna.

6. Bandaríski fjárfestingabankinn JPMorgan Chase er stærsti banki heims þegar kemur að markaðsvirði og sá sjötti stærsti sé litið til heildareigna. Núverandi mynd bankans varð til við sameiningu J.P. Morgan & Co. og Chase Manhattan Corporation árið 2000. Hinn frægi forstjóri bankans, Jamie Dimon, tók við stöðunni stuttu eftir yfirtöku JP Morgan Chase á Bank One, sem var þá fimmti stærsti banki Bandaríkjanna, árið 2004. Í aðdraganda fjármálahrunsins festi bankinn kaup á Bear Stearns, fimmta stærsta fjárfestingabanka Bandaríkjanna sem var á barmi gjaldþrots.

  • Heildareignir: 430 þúsund milljarðar
  • Hagnaður: 3.950 milljarðar
  • Arðsemi heildareigna: 0,92%
  • Starfsmenn: 255 þúsund

7. Franski bankinn BNP Paribas SA er stærsti banki Evrópu með nærri 390 þúsund milljarða króna í heildareignir. Bankinn á rætur sínar að rekja til stofnunar þjóðarbankans Comptoir national d’escompte de Paris í kjölfar byltingarinnar í París árið 1848. Bankinn varð til í núverandi mynd við samruna BNP, sem var einkavæddur árið 1993, og fjárfestingabankans Paribas árið 2000. Belgíska ríkið varð stærsti hluthafi BNP Paribas við yfirtöku hans á Fortis Bank Belgium árið 2008.

  • Heildareignir: 388 þúsund milljarðar
  • Hagnaður: 1.145 milljarðar
  • Arðsemi heildareigna: 0,29%
  • Starfsmenn: 193 þúsund

8. HSBC , næststærsti banki Evrópu, var stofnaður af Bretum eftir að þeir gerðu Hong Kong að nýlendu sinni í kjölfar Fyrra ópíumstríðsins. Ýmis hneykslismál hafa verið viðloðandi HSBC á síðustu árum. Bankinn greiddi 1,9 milljarða dala í sekt fyrir peningaþvættismál tengd mexíkóskum eiturlyfjahringum. HSBC hefur að undanförnu lagt áherslu á að byggja upp kjarnastarfsemi sína í Asíu og hafa æðstu stjórnendur verið færðir til starfsstöðva bankans í Hong Kong.

  • Heildareignir: 380 þúsund milljarðar
  • Hagnaður: 825 milljarðar
  • Arðsemi heildareigna: 0,22%
  • Starfsmenn: 226 þúsund

9. Bank of America (BoA) er annar af bandarísku bönkunum tveimur sem kemst í tíu efstu sætin. Bank of America varð til árið 1998 við 62 milljarða dala yfirtöku NationsBank á Bank America, sem hafði þá orðið fyrir miklu tapi við fjármálakreppuna í Rússlandi sama ár. Yfirtakan var á sínum tíma stærsta yfirtaka á banka í sögunni. Bank of America keypti Merrill Lynch í september 2008, sem var þá á barmi gjaldþrots. BoA er næststærsti banki heims ef miðað er við markaðsvirði.

  • Heildareignir: 359 þúsund milljarðar
  • Hagnaður: 2.420 milljarðar
  • Arðsemi heildareigna: 0,67%
  • Starfsmenn: 212 þúsund

10. Franski bankinn Crédit Agricole er stærsti samvinnubanki heims. Crédit Agricole er einnig þekktur sem „græni bankinn“, ekki vegna áherslu hans á sjálfbærni- og umhverfismál heldur vegna sögulegra tengsla við landbúnað. Bankinn var einkavæddur árið 2001 og er í dag í meirihlutaeigu hóps svæðisbundinna banka. Crédit Agricole státar af því að vera stærstur meðal evrópskra banka í vátryggingaþjónustu.

  • Heildareignir: 306 þúsund milljarðar
  • Hagnaður: 595 milljarðar
  • Arðsemi heildareigna: 0,19%
  • Starfsmenn: 142 þúsund

Stærsti banki Norðurlanda

Nordea Bank er stærsti banki Norðurlandanna en litlu munar á heildareignum hans og Danske Bank. Nordea varð til við samruna finnska bankans Merita, sænska Nordbanken, danska Unidanmark og norska Christiania Bank á árunum 1997-2001. Á undanförnum árum hefur Nordea verið að minnka verulega starfsemi sína í Rússlandi, Póllandi og Eystrasaltsríkjunum. Nordea og DNB sameinuðu starfsemi sína á Eystrasaltssvæðinu með stofnun bankans Luminor árið 2016 sem var síðar seldur til Blackstone. Nordea færði höfuðstöðvar sínar frá Stokkhólmi til Helsinki árið 2018.

  • Heildareignir: 86.190 þúsund milljarðar
  • Hagnaður: 350 milljarðar
  • Arðsemi heildareigna: 0,41%
  • Starfsmenn: 28 þúsund

Listann í heild sinni má finna í bókinni 300 stærstu sem kom út nýlega. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .