Umræðan um afkomu viðskiptabankanna í fyrra hefur verið með nokkrum ólíkindum. Það er jafnframt umhugsunarvert að umræða sem byggir í besta falli á rangtúlkunum á staðreyndum fái jafn mikla umfjöllun í fjölmiðlum og raun ber vitni.

Sem kunnugt er nam samanlagður hagnaður viðskiptabankanna í fyrra um áttatíu milljörðum króna. Þrátt fyrir að um háa upphæð sé að ræða gefur afkoman ekki tilefni til umræðu um „ofurhagnað" og hvað þá hugmyndir um stjórnvaldsaðgerðir til að uppræta hann. Afkoman endurspeglar mikið eigið fé bankanna og þegar litið er til arðsemi af rekstrinum sést að hún er að meðaltali um 12% sem er sambærilegt við það sem þekkist meðal sæmilega rekinna banka beggja vegna Atlantsála. Hafa verður í huga að afkoman í fyrra markaðist af endurmati á eignum sem voru færðar niður þegar óvissan um afleiðingar heimsfaraldursins var í hámæli.

Arðsemi af rekstri bankanna í fyrra og árin þar á undan gefur hvorki tilefni til umræðu um „ofurhagnað" né sérstaka skattlagningu í þeim efnum. Orð Lilju Alfreðsdóttir, ferða-, menningarmála og viðskipta- ráðherra, um að afkoma bankanna í fyrra gefi tilefni til að leggja á sérstakan bankaskatt vekja undrun. Ekki síst í ljósi þess að slíkur skattur er enn lagður á rekstur þeirra. Rétt er að halda til haga að lækkun hans hefur svo haldist í hendur við minnkandi vaxtamun á undanförnum árum. Bankaskatturinn er lagður á skuldahlið bankanna og hefur því ótvíræð áhrif á viðskiptakjör og þrátt fyrir lækkun hans er hann umtalsvert hærri en þekkist í þeim Evrópuríkjum sem leggja á sambærilegan skatt. Til viðbótar við bankaskatt er innheimtur viðbótartekjuskattur af hagnaði fjármálafyrirtækja umfram milljarð og að sama skapi borga þau fjársýsluskatt sem er lagður á launagreiðslur þeirra.

Eftir stendur að afkoma íslensku viðskiptabankanna í fyrra var í takt við það sem gengur og gerist meðal sæmilega rekinna banka í Evrópu. Þegar litið er til raunávöxtunar og virðisbreytinga sést að hún var einungis ríflega 5% að meðaltali árið 2021. Jafnframt verður ekki með góðu móti séð að skattaumhverfið fari sérlega mjúkum höndum um fjármálakerfið í samanburði við það sem tíðkast í nágrannalönd- um. Hið séríslenska skattaumhverfi fjármálageirans grefur undan samkeppnishæfni hans og bitnar á neytendum til lengri tíma litið.

Í umræðunni í kjölfar þess að afkoma bankanna lá fyrir stigu nafntogaðir hagfræðingar á borð Gylfa Zoega og Þórólf Matthíasson fram og sögðu að rekja mætti meintan „ofurhagnað" til fákeppni á íslensk- um fjármálamarkaði. En ríkir í raun og veru fákeppni? Það eru ekki eingöngu viðskiptabankarnir sem veita fasteignalán til einstaklinga svo eitthvert dæmi sé tekið. Á markaðnum starfa nú tæplega tuttugu lánveitendur - bankar, sparisjóðir og lífeyrissjóðir. Á sama tíma hefur veigamiklum hindrunum fyrir endurfjármögnun fasteignalána ver- ið rutt úr vegi á undanförnum árum og hefur þetta leitt til mikillar samkeppni á þessum markaði.

Samkeppnin hefur einnig aukist þegar kemur að annarri fjármálaþjónustu við einstaklinga. Sparifjáreigendum stendur ekki eingöngu
 til boða að leggja fé sitt á innlánsreikninga í viðskiptabönkunum. Á undanförnum árum hafa tveir erlendir netbankar hafið starfsemi á Íslandi og eins og þróun undanfarinna ára sýnir hafa einstaklingar í vaxandi mæli fært sparnað sinn af innlánsreikningum yfir í verðbréfasjóði og önnur sparnaðarform. Að sama skapi hefur fjártæknibyltingin leitt til þess að fjölbreytt flóra fyrirtækja keppast nú við að veita einstaklingum fjármálaþjónustu með einum eða öðrum hætti. Sú mynd að íslenskir neytendur eigi þann eina kost að eiga í viðskiptum við stóru viðskiptabankana þegar kemur að hefðbundinni fjármálaþjónustu á sér enga stoð í raunveruleikanum lengur. Þegar litið er til fyrirtækjalána sést að íslensku bankarnir eru í harðri samkeppni við erlenda banka. Þannig hefur markaðshlutdeild norrænna banka í lánveitingum til stærstu fyrirtækja landsins vaxið mikið síðastliðinn áratug - ekki síst vegna þess að þeir búa ekki við jafn íþyngjandi skattaumhverfi.

Það er ákaflega brýnt að öll umræða um fjármálakerfið byggi á staðreyndum og raunsærri nálgun á þeim efnahagslega veruleika sem blasir við hverju sinni. Gera verður þá kröfu til stjórnmálamanna og að umfjöllun þeirra um efnahagsmál taki tillit til þeirrar staðreyndar. Í þessu samhengi verður ekki með nokkru móti séð að réttlætanlegt sé að tala um „ofurhagnað" og fákeppni þegar kemur að umræðu um afkomu bankanna. Væri um slíkt að ræða ætti öllum að vera ljóst að skattkerfið er nú þegar hannað til þess að slík afkoma myndi skila sér til ríkissjóðs.