Stjórnmálamaður sem tekur stöðu með atvinnulífinu – fyrirtækjum um allt land, stórum og smáum, athafnamönnum, sjálfstæðum atvinnurekendum, – verður að vera undir það búinn að vera sakaður um að ganga erinda sérhagsmuna. Oft ganga gagnrýnendur fram af hörku og saka viðkomandi um að vera í þjónustu auðvaldsins – þátttakandi í óskilgreindu samsæri gegn almenningi. Jafnvel makar stjórnmálamanna, sem getið hafa sér gott orð í atvinnurekstri í áratugi, eru tortryggðir og reynt er að skerða athafna- og málfrelsi þeirra. Í þingsal er alið á fjandskap í garð fyrirtækja og atvinnugreina. Áhrifamiklir fjölmiðlar spila með og kynda undir. Óvild meirihluta borgarstjórnar í garð fyrirtækja er fyrir löngu landsþekkt enda dæmin mörg, sum smá en önnur stór. Atlagan að fyrirtækjunum – einkaframtakinu – hefur staðið linnulítið í mörg ár. Árangur í rekstri er litinn hornauga, hagnaður er merki um sjálftöku og arður er birtingarmynd græðgisvæðingar auðvaldsins.

Saklausir sæti rannsókn

Með skipulegum hætti er grafið undan athafnafólki og það gert að skotspæni sem táknmyndir hins illa. Engu skiptir hvort um er að ræða dugnaðarforka sem byggt hafa upp glæsileg fyrirtæki í sjávarútvegi, iðnaðarmenn sem hafa byrjað með tvær hendur tómar en með elju og útsjónarsemi komið á fót traustum og arðsömum fyrirtækjum eða útsjónarsama fjölskyldu sem skynjaði tækifæri í ferðaþjónustu. Sjálfstæðir atvinnurekendur fá ekki að vera í friði. Allt og allir eru tortryggðir enda eiginhagsmunaseggir sem skara eld að eigin köku á kostnað samfélagsins. Það þykir eðlilegt og sjálfsagt (jafnvel nauðsynlegt) að dylgja og saka einstaklinga um lögbrot – umboðssvik, eða ósiðlega framkomu í viðskiptum. Þegar sá sem borinn er röngum sökum grípur til varna, er það gert tortryggilegt og sagt til merkis um sekt. Þingmaður Pírata telur að allir saklausir menn eigi að fagna því ef þeir eru teknir til rannsóknar. Þannig er búið að hafa endaskipti á reglum réttarríkisins með svipuðum hætti og gert var í Ráðstjórnarríkjunum og er enn gert í ríkjum sem virða ekki einstaklingsfrelsi og almenn mannréttindi.

Forðast stjórnmálin

Afleiðing þessa er að einstaklingar sem hafa áralanga reynslu úr atvinnulífinu, hafa byggt upp fyrirtæki, skapað verðmæti og störf en tekið áhættu til að ná árangri, hafa enga löngun til að taka þátt í pólitísku starfi, hvað þá að leitast eftir kjöri til Alþingis. Þess vegna er að þingið ekki eins vel mannað og það gæti verið. Skilningur á gagnverki þjóðfélagsins, samhengi verðmætasköpunar og lífskjara, á undir högg að sækja. Það er skiljanlegt. Fæstir þeirra sem kjörnir eru á Alþingi hafa kynnst því hvað það er að setja allt sitt undir í rekstur fyrirtækis. Þekkja ekki þær áhyggjur að eiga fyrir launum starfsmanna um næstu mánaðamót eða geta staðið skil á virðisaukaskatti á komandi gjalddaga. Hið sama á við um fjölmiðlunga sem harðast ganga fram í gagnrýni á atvinnulífið. Kannski er þetta ástæða fyrir því að jarðvegurinn fyrir sífellt þyngri byrðar á fyrirtæki, flóknara regluverk og hert eftirlit, er eins frjór og raun ber vitni í þingsal. Og ef til vill skýrir þetta einnig hversu neikvæðir margir stjórnmálamenn og -flokkar eru gagnvart einkarekstri hvers konar ekki síst í heilbrigðisþjónustu. Góð reynsla af einkarekstri er léttvæg, betri þjónusta aukaatriði og lægri kostnaður ríkisins (okkar skattgreiðenda) er aukaatriði. Andstæðingar einkarekstrar vilja fremur senda sjúklinga til annarra landa en tryggja aðgengi almennings að nauðsynlegri þjónustu hér á landi. Hagsmunir hinna sjúkratryggðu – allra Íslendinga – eru ekki leiðarvísirinn. Ríkisrekstur er trúaratriði.

Ekki skoðanalausir

Flestir ef ekki allir sem stunda viðskipti – reka fyrirtæki, skapa verðmæti og störf – byggja á ákveðnum lífsskoðunum. Þeir eru pólitískir í eðli sínu. Kannski ekki flokkspólitískir, en þeir hafa ákveðnar fastmótaðar hugmyndir um samfélagsmál og skipulag þjóðfélagsins. Þeir búa yfir reynslu og ómetanlegri þekkingu. En þeir hafa hvorki löngun né áhuga á að hasla sér völl á leiksviði stjórnmálanna og eiga þar með möguleika á að hafa bein áhrif á lagasetningu og stefnu stjórnvalda m.a. í atvinnumálum. Lengi hefur verið rætt um nauðsyn þess að gera stjórnmálin meira aðlaðandi fyrir ungt fólk þannig að það sjái ástæðu til að leggja þau fyrir sig. Með sama hætti hafa flestir stjórnmálaflokkar lagt áherslu á að ryðja braut kvenna til áhrifa innan flokkanna og tryggja þeim framgang. Árangur hefur náðst, þó margir telji að gera megi betur. En með sama hætti sem ungu fólki og konum er fagnað í þingsal Alþingis og í sveitarstjórnir, ætti það að vera sérstakt keppikefli fyrir stjórnmálaflokka (ekki síst þá sem kenna sig við frjáls viðskipti og öflugt atvinnulífið) að laða til sín framtaksfólk sem þekkir eðli fyrirtækjarekstrar. Athafnaskáld í sölum Alþingis geta lagt þung lóð á vogaskálar við afeitrun þess neikvæða andrúmslofts sem búið hefur verið til í kringum verðmætasköpun og framtakssemi einstaklinganna.

Höfundur er formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.