Fjölmiðlar virðast hafa meiri áhuga á upphlaupum þingmanna í tengslum við síðasta útboð ríkisins á eignarhlut sínum í Íslandsbanka en að greina frá staðreyndum og efnisatriðum málsins og öðru sem skiptir almenning máli í því samhengi. Ágætt dæmi um þetta er sá handagangur sem varð í öskjunni í vikubyrjun vegna þess að Bankasýslan þurfti tveggja daga frest til að ljúka við minnisblað vegna spurninga sem Alþingi lagði fram vegna sölunnar í fyrr í mánuðinum.

Morgunblaðið reið á vaðið á mánudagsmorgun. Á forsíðu var sagt frá því að Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, væri „gáttuð“ og „hissa á þessari framgöngu Bankasýslunnar“. Þegar leið á daginn birtust svo fleiri fréttir af þingmönnum sem voru með böggum Hildar sökum þess að þeir þurftu að bíða í tvo daga til viðbótar eftir svörum Bankasýslunnar. Depurð sótti að Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formanni fjárlaganefndar, vegna málsins en hún lýsti því jafnframt í viðtali við Ríkisútvarpið að flest að því sem spurt hafi verið um væri nú þegar komið fram. Engum fjölmiðli datt í hug að spyrja Bjarkeyju um mótsögnina sem fælist yfir óþreyju yfir að fá ekki í hendurnar upplýsingar sem að hennar sögn væru nú þegar komnar fram.

Að sama skapi virtist ekki hvarfla að neinum fjölmiðli að málefnalegar ástæður gætu verið fyrir að Bankasýslan þurfti tveggja daga frest til að ljúka við gerð minnisblaðsins. Vissulega reyndu einhverjir fjölmiðlar að ná í Jón Gunnar Jónsson, forstjóra Bankasýslunnar, en hann tók ekki símann enda augljóslega upptekinn við að svara spurningum Alþingis sem eru á fimmta tug. Augljóst má vera að einhverjar spurningar snerta á lagatæknilegum atriðum á borð við birtingu tilboðsbókar og þar af leiðandi kunna að vera mjög góðar ástæður fyrir að starfsmenn Bankasýslunnar hafi talið sig þurfa meiri tíma til að ganga úr skugga um réttmæti svara. Þannig má leiða líkum að því að eitthvað af spurningum Alþingis lúti að upplýsingum sem eru að finna í tilboðsbókinni og þar af leiðandi fjöldi ástæðna fyrir að Bankasýslan þurfi að hafa vaðið fyrir neðan sig áður en þær eru veittar.

En af fréttaflutningi af þessum þætti málsins má draga þá ályktun að fjölmiðlar hafi fyrst og fremst áhuga á moldviðrinu en ekki á staðreyndum málsins hverjar sem þær kunna svo að vera.

***

Í þessu samhengi má svo velta fyrir sér af hverju sumir þingmenn fara af hjörunum vegna þess að Bankasýslan biður um tveggja daga frest til að svara spurningunum og eru á sama tíma að krefjast þess að Alþingi skipi rannsóknarnefnd til að skoða síðasta útboð eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka. Reynslan af slíku nefndarstarfi sýnir að starfstíminn er mældur í árum og kostnaðurinn hleypir á hundruðum milljóna. Þannig nam kostnaður rannsóknarnefndar Alþingis vegna sparisjóðanna hátt í milljarði króna og um 250 milljónum vegna rannsóknar löggjafans á örlögum Íbúðalánasjóðs.

En það sem skiptir kannski mestu máli er spurningin hvaða þættir sölunnar eru enn sveipaðir þeirri leynd sem einungis rannsóknarnefnd á vegum þingsins getur afhjúpað. Hvað svo sem mönnum kann að þykja um framkvæmd útboðsins virðast flestir þættir þess liggja fyrir enda viðurkennir formaður fjárlaganefndar það eins og vísað er til hérna fyrir ofan. Vafalaust skýrist myndin svo enn frekar þegar Ríkisendurskoðun hefur lokið skoðun sinni og það sama á við Fjármálaeftirlitið. Í ljósi þessa er undarlegt að fjölmiðlar spyrji ekki hreint út hvað það er sem ekki liggur fyrir og einungis rannsóknarnefnd á vegum Alþingis getur svælt fram í dagsljósið.

***

Frambjóðendur flokkanna sem eru í minnihluta í borginni kvarta stundum yfir því að kjósendur hafi lítinn áhuga á fjárhagsstöðu borgarinnar sem varla verður lýst með öðrum hætti en að hún sé grafalvarleg. Hvort sem eggið eða hænan kemur á undan í þessum efnum liggur skýrt fyrir að fjölmiðlar eru jafn áhugalausir um fjárhagsstöðu borgarinnar. Þannig birti borgin ársreikning síðasta árs á dögunum. Flestir fjölmiðlar slógu því upp að borgin hefði verið rekin með ríflega tuttugu milljarða afgangi í fyrra. Fæstir fjölmiðlar fjölluðu af neinu viti um að þessi svokallaði rekstrarafgangur er tilkominn vegna virðisbreytinga eigna Félagsbústaða og hækkandi gangverðs á álverðsafleiðum Orkuveitunnar. Með öðrum orðum: Bókhaldsbreytingar sem skila ekki krónu í borgarsjóð.

Þar sem matsaðferð borgarinnar á fasteignum Félagsbústaða er svo ráðandi í endanlegri afkomu rekstrarársins er athyglisvert að fjölmiðlar fjalli ekki frekar um þann þátt málsins. Ekki síst í ljósi þeirrar staðreyndar að Eftirlitsstofnun EFTA hefur í tvígang sent stjórnvöldum erindi þar sem óskað er eftir rökstuðningi á reikningsskilum Reykjavíkurborgar sem kunna að vera í trássi við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Eins og fram kom í umfjöllun Viðskiptablaðsins hafa Félagsbústaðir á síðustu árum metið fasteignir sínar á gangvirði fremur en kostnaðarverði. Það er umdeilanlegt enda flokkast félagslegt húsnæði ekki sem „fjárfestingaeign“ samkvæmt viðurkenndum reiknisskilastöðlum. Neyðist félagið til að breyta um matsaðferð gæti það leitt til hátt í 70 milljarða króna niðurfærslu á virði fasteignasafnsins.

Þá er einnig umhugsunarefni að skortur á veltufé frá rekstri í reikningum borgarinnar skuli ekki vekja upp áleitnar spurningar meðal fjölmiðlamanna. Miðað við viðmið eftirlitsnefndar um fjármálasveitarfélaga ætti veltufé frá rekstri að vera um 5% af tekjunum. Þessi kennitala sýnir svigrúm sveitarfélags til að greiða afborganir vegna skulda og skuldbindinga. Veltufé frá rekstri Reykjavíkurborgar í fyrra var 370 milljónir í fyrra eða sem nemur 0,3% af heildartekjum.

Eins og áður hefur verið fjallað um á þessum vettvangi virðast embættismenn borgarinnar gera sér grein fyrir hversu alvarlegt ástandið er. Í minnisblaði sem fylgdi umsögn borgarinnar um lagafrumvörp ríkisstjórnarinnar  til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldursins árið 2020 er áleitnum spurningum um gjaldfærni borgarinnar svarað með skilmerkilegum hætti. Þar segir:

„(…) veltufé frá rekstri þarf að vaxa mjög mikið á næstu árum á eftir til að sveitarfélagið eigi möguleika á að standa undir þeim byrðum. Það gerist ekki nema með verulegri aukningu tekna eða stórfelldum niðurskurði. Þetta eru meginrökin fyrir því að ríkissjóður komi með beinum hætti að fjármögnuninni með sérstökum óendurkræfum framlögum til að mæta þessum vanda .“

Það er furðulegt að þessi afdráttarlausa lýsing á grafalvarlegri stöðu fjármála Reykjavíkurborgar skuli ekki hafa vakið athygli fjölmiðla og þeir spurt borgarfulltrúa út í málið.

***

Morgunfréttir Bylgjunnar og Stöðvar 2 síðastliðinn föstudag komu fjölmiðlarýni spánskt fyrir sjónir. Fyrsta fréttin var endursögn á forsíðufrétt Fréttablaðsins og sú sem fylgdi í kjölfarið boðaði landsmönnum þau stórkostlegu tíðindi að Gunnar Smári Egilsson, áhrifavaldur á samfélagsmiðlum, telur kapítalismann og markaðshagkerfið ómögulegt – jafnvel kolómögulegt. Fréttin sem lesinn var upp hljóðar svona:

Auðvaldið er grimmt og miskunnarlaust, sjálfselskt og svikult, eyrir engu og er tilbúið að stela, ljúga og svíkja ef það eykur við auð þess. Þetta segir Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokks Íslands, í aðsendri grein sem birtist á Vísi í morgun. Í greininni hleypur hann yfir fortíð nokkurra hluthafa fyrirtækja Kauphallarinnar og kallar þá fagfjárfesta sem boðið var að kaupa í Íslandsbanka skítapakk. Gunnar Smári segir niðurstöðuna á sölu Íslandsbanka hafa verið óumflýjanlega. Annaðhvort hefði almenningur þurft að eiga bankann áfram eða hann hefði verið seldur því sem hann kallar auðvaldið. Greinina má, eins og fyrr segir, finna á Vísi en í henni hvetur Gunnar Smári fólk m.a. til baráttu og mótmæla.

Þrátt fyrir að framganga fjölmiðla hafi að einhverju leyti verið undarleg í tengslum við síðasta útboð á eignarhluta ríkisins Íslandsbanka vekur þetta fréttamat furðu. Það er í sjálfu sér ekki fréttnæmt að Gunnar Smári segi hið svokallaða auðvelt „grimmt og miskunnarlaust, sjálfselskt og svikult“. Þaðan af síður er það fréttnæmt að hann segi fjárfesta „skítapakk“ þó svo að setja mætti þetta orðalag í samhengi við þá umræðu sem hefur átt sér stað að undanförnu um hatursorðræðu og ábyrgð fjölmiðla í þeim efnum.

Það verður áhugavert að fylgjast með hvort fréttastofa Bylgjunnar og Stöðvar 2 haldi áfram á þessari braut og flytji fréttir af því í hvert sinn sem Gunnar Smári stingur niður penna og segir frá því hvað honum þykir markaðsskipulagið sem hefur stuðlað að vexti og velmegun á Vesturlöndum vera ömurlegt. Ef það verður raunin er hætt við því að fátt annað komist í fréttatímana á þeim bænum.