Á Viðskiptaþingi viðraði Einar Þorsteinsson borgarstjóri hugmyndir um að borgin stofnaði sitt eigið byggingarfélag. Það segir kannski meira en mörg orð um trúverðugleika núverandi borgarmeirihluta að þessi hugmynd hefur ekki fengið mikla athygli.

Einar segir að lóðaskortur sé ekki ástæðan fyrir lítilli uppbyggingu á fasteignum í Reykjavík. Vandamálið liggur hjá byggingarverktökum. Þær sækja í þá gnótt sem lóðaframboð borgarinnar er að sögn Einars en hætta að byggja um leið og vextir hækka.

Í frásögn Viðskiptablaðsins af Viðskiptaþingi er eftirfarandi haft eftir Einari borgarstjóra:

„Svo þegar vextirnir hækka. Þá bara henda þeir hömrunum í bílskúrinn og bíða. Við erum hérna með neyðarástand á húsnæðismarkaði og ég höfða til þessa salar hérna hvernig ætlum við að byggja upp samfélag þar sem fólk býr við húsnæðisöryggi. Hlýtur það ekki að vera samfélagsábyrgð fjármálastofnana sem lána framkvæmdarlánin og þeirra sem byggja að þó að það harðni aðeins á dalnum að menn haldi áfram að byggja.

En af því við erum að tala um hlutverk hins opinbera, er þá svarið að Reykjavíkurborg opni bara Byggingarfélag Reykjavíkur? Og byggi þetta sjálf. Því við eigum lóðirnar, það skortir ekki lóðir.“

Og enn fremur:

„Ef fjármála-stofnanir og verk-taka-geirinn taka sig ekki á og eru tilbúin til að byggja þó að þau hagnist aðeins minna á því þá getur maður ekki skoðað það öðruvísi en að það sé ákall á að sveitarfélögin byggi bara sjálf.“

Við þetta er eitt og annað að athuga. Frá árinu 2021 voru byggðar 7.529 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Af þeim fjölda voru 4.286 byggðar í Hafnarfirði, Kópavogi, Garðabæ og Mosfellsbæ. Einungis voru 3.282 íbúðir byggðar í Reykjavík á sama tíma. Munurinn er sláandi, ekki síst þegar haft er í huga að fjörutíu þúsund fleiri búa í höfuðborginni en í hinum sveitarfélögunum samanlagt.

Tilraun til að varpa sökinni á verktaka og vaxtastigið eins og Einar gerir er hjákátleg. Raunvextir urðu ekki jákvæðir fyrr en um mitt ár í fyrra, þannig að hvati til uppbyggingar hefur verið mikill nánast allt tímabilið. Það hlýtur að vera önnur ástæða sem útskýrir hversu illa Reykjavík hefur staðið sig að mæta hinni miklu eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði sem er á höfuðborgarsvæðinu. Framboð af hentugum lóðum hlýtur að útskýra það að stærstum hluta.

Hugmynd Einars um að borgin stofni sitt eigið byggingarfélag var vafalaust hugsuð sem brandari. En brandarinn er ekkert fyndinn þegar horft er til fjárhagsstöðu borgarinnar. Slíkt byggingarfélag gæti ekki fjármagnað sig.

Ágætt dæmi um það er að nýlega gaf fasteignafélagið Kaldalón út skuldabréf, sem er verðtryggt og til tíu ára. Kaldalón lauk fjármögnuninni á 4% vöxtum. Það er umtalsvert hagstæðari fjármögnun en Reykjavíkurborg nýtur á sambærilegum skuldabréfum. Í síðustu viku gaf borgin út óverðtryggð skuldabréf á kjörum sem eru 140 punktum hærri en á sambærilegum pappír gefnum út af ríkinu. Einstaklingar geta tekið fasteignalán á mun hagstæðari kjörum en borginni stendur til boða.

Ástæðan fyrir þessu er einfaldlega sú að þátttakendur á skuldabréfamarkaðnum átta sig á alvarlegri fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar og hafa ekki trú á að núverandi meirihluti snúi rekstrinum og skuldasöfnuninni við að óbreyttu.  Þeir átta sig á þessu, rétt eins og flestir sem kynna sér málið, sjá að of lítið framboð hefur verið á hentugum lóðum til uppbyggingar á fasteignum undanfarin ár.

Þessi leiðari birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 21. febrúar 2024.