Fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli birti ársreikning á dögunum vegna ársins 2019. Þar kemur fram að hagnaður eftir tekjuskatt reyndist 281 milljón króna.

***

Það verður að teljast heldur rýr uppskera í tvöfaldri einokunarverslun, sem selur að eigin sögn vörurnar tollfrjálst - duty free - rétt eins og verslunin nefnir sig á ensku. Og verðlagningin nú eins og hún er í samanburði við það sem gerist í almennum verslunum.

***

Það er þrennt sem Óðinn kom auga á í ársreikningi Fríhafnarinnar sem hann telur rétt að deila með lesendum Viðskiptablaðsins.

***

Í fyrsta lagi

Í fyrsta lagi er húsnæðiskostnaður ríkisreknu einokunarverslunarinnar 4,2 milljarðar króna. Samkvæmt heimasíðu Ísavia, eiganda Fríhafnarinnar, er Fríhöfnin með um 4.000 m² í flugstöðinni. Það gerir tæpar 90 þúsund krónur á fermetrann á mánuði, sem Fríhöfnin leigir svo dýrum dómum af eiganda sínum, Ísavia.

Til samanburðar kosta bestu verslunarplássin í Kringlunni um 10 þúsund krónur á fermetrann. Það myndi þýða 480 m.kr. á ári í leigu. Jú, aðstaðan í flugstöðvum er almennt talsvert dýrari í sambærilegu húsnæði og þar eiga verslunarrekendur að öllu jöfnu að ganga stríðum straumi viðskiptavina vísum. En þessi munur er galinn.

***

Aðferðafræðin þarna að baki vekur upp spurningar. Sú fyrsta og mikilvægasta er hvort verið sé að fegra niðurstöðu ársreiknings Fríhafnarinnar þannig að viðskiptavinir hennar átti sig ekki á því hversu mikið hún er að hagnast. Að í raun sé langur vegur frá því að það sé eitthvað frítt í þessari fríhöfn.

***

Önnur er sú að með þessu lítur rekstrarhagnaður Ísavia, móðurfélagsins, betur út. En þetta myndi hins vegar ekki breyta eiginlegri niðurstöðu ársreiknings móðurfélagsins mikið.

***

Í öðru lagi

Það er fleira en falinn hagnaður Fríhafnarinnar sem vekur athygli í ársreikningnum. Það er sú staðreynd að þetta er bara alls ekki fríhöfn þegar nánar er að gáð. Það er nefnilega lagður á tollur á vörur, í það minnsta sumar, sem seldar eru í „fríhöfninni". Fríhöfnin færði til gjalda 674 m.kr. í áfengisog tóbaksgjald í ársreikningi 2019.

Eftir því sem Óðinn kemst næst er þetta þó aðeins lítið brot, um 10%, af gjaldinu, sem innheimt er af þeim sem greiða fullt gjald, viðskiptavinum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Heiti verslunarinnar er því ósannindi, en hún gæti með réttu tekið upp nafnið 90% Fríhöfn, þó það sé ekkert sérstaklega þjált.

***

Í þriðja lagi

Undir liðnum varanlegir rekstrarfjármunir, í skýringu 10 með ársreikningnum, vekur athygli að stofnverð innréttinga nemur 632 m.kr. í árslok 2019. Það þýðir að innréttingar á hvern fermetra „Fríhafnarinnar" hafa kostað 158 þúsund krónur. Það væri áhugavert að fá útskýringar á því hjá stjórnendum „Fríhafnarinnar" en þetta hlýtur að vera Íslandsmet.

***

Og raunar ekki aðeins athyglisvert að fá upplýst hvernig sá kostnaður er til kominn í hinu fremur bensínstöðvarlega umhverfi Fríhafnarinnar, heldur kannski ekki síður hvar og hvernig íburðurinn er falinn. Einhversstaðar hljóta að vera leynd salarkynni með marmaralögðum gólfum, alabastursssúlum, húsgögnum úr íbenholti og fílabeini, tjölduðum með gullbrydduðum purpura og pelli, þar sem kampavínið streymir úr platínukrönum í handskorinn tékkneskan kristal.

***

Einnig væri fróðlegt að fá yfirlit yfir liðinn Bifreiðar og flutningstækja, sem er að stofnverði í árslok 2019 75 m.kr. Það er nokkuð vel í lagt fyrir sendibílinn.

***

Hverjir stjórna?

„Fríhöfnin" veltir 13 milljörðum króna á ári og því meðal stærstu verslana á Íslandi. Athygli vekur að Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, er stjórnarformaður „Fríhafnarinnar". Hún er án efa ágætur stjórnarformaður í þessu ríkiseinokunarfélagi, en ef félagið liti lögmálum markaðarins eru löglíkur fyrir því að ríkari krafa hefði verið um reynslu af verslun og viðskiptum til þeirra sem sætu í slíkri stjórn.

***

Frumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins

Þingmennirnir Teitur Björn Einarsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Óli Björn Kárason og Vilhjálmur Árnason lögðu fram frumvarp haustið 2018 þar sem lagt var til að rekstri „Fríhafnarinnar" yrði einfaldlega hætt.

***

Meginefni frumvarpsins var að kveða á um í lögum að ríkið, í gegnum Isavia ohf. og dótturfélag þess „Fríhöfnin", hætti að reka verslanir með tollfrjálsa vöru í smásölu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Enda ósennilegt í rökræðu um verkefni ríkisvaldsins, að þar myndi jafnvel stækasti kommi af gamla skólanum setja verslun með sprútt og tóbak, nammi og munaðarvarning, framarlega á listann.

***

Í frumvarpinu var lagt til að í staðinn myndi Ísavia bjóða út verslunarrými til fyrirtækja á almennum smásölumarkaði sem myndi annast alla verslunarþjónustu við farþega flugstöðvarinnar, þar á meðal Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins til að selja áfengi og tóbak.

***

Í frumvarpinu sagði meðal annars:

Markmið frumvarpsins er að breyta þessu fyrirkomulagi og mæla fyrir um að ríkið hætti samkeppnisrekstri á ýmsum smásöluvörum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar en bjóði þess í stað út allan rekstur á verslunum með vörur og þjónustu í samræmi við ákvæði laga um opinber innkaup þar sem gætt sé að jafnræði fyrirtækja og stuðlað að virkri samkeppni milli aðila á innlendum smásölumarkaði.

***

Undir þetta geta vafalaust flestir lesendur Viðskiptablaðsins tekið með Óðni og flutningsmönnum frumvarpins. Og þeir eru örugglega ekki heldur hissa, frekar en Óðinn, þegar hann segir þeim að frumvarpið dagaði fljótt og örugglega uppi í meðförum Alþingis.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .