Hrafnarnir eru hugsi yfir öllum þessu furðulegu framboðum til forseta Íslands.

Flest þeirra virðast snúast um einkennilega sjálfsmynd hjá fólki, sem fæst hefur áorkað nokkru í lífinu eða getið sér sérstakt orð á sínu sviði.

Það er kannski til marks um hversu furðulegt þetta allt saman er að hrafnarnir heyra í fjölda manns sem líta á Ásdísi Rán Gunnarsdóttir, þyrluflugmann, sem meginstraumsframbjóðanda ásamt örfáum öðrum. Sumir í þeirra hóp eru jafnvel til í smá glamúr og glys á Bessastaði og þykir það ekkert verra en innantómt blaður um sjálfbærni og frið.

Katrín myndi breyta landslaginu

Þessi staða mun ekki breytast fyrr en í ljós kemur hvort Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra bjóði sig fram. Margir sem hrafnarnir heyra telja einsýnt að Katrín tilkynni um framboð á næstu dögum – það er að segja ef henni tekst að búa þannig um hnútana að brotthvarf hennar úr landsmálunum muni ekki sprengja upp ríkisstjórnina. Það mun útheimta alla hennar stjórnlist og sannfæringarmátt.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 27. mars 2024.