Vaxtahækkun í síðustu viku og hótunin, eða þá loforðið, um frekari hækkanir – lækki verðbólga ekki – hefur eflaust komið sumum á óvart. Líklegast er að leikmenn hafi orðið hissa frekar en lærðir sem hafa jafnan mismunandi skoðanir, oftar en ekki eftir hagsmunum.

Hluti verðbólgunnar, sem við sjáum nú hærri en í rúman áratug, er innfluttur og því illviðráðanlegur. Ekki þó að öllu leyti því ríkisvaldið leggur há gjöld á margar þær hrávörur sem nú hækka mest, líkt og olíuna. Auðvitað gæti þetta sama ríkisvald og nú misnotar aðstöðu sína í öllum óförunum vegna stríðsrekstursins í Úkraínu lækkað álögurnar til að koma til móts við þá sem helst verða fyrir barðinu á verðbólgunni. Það hefði líka áhrif til lækkunar á vísitölunni. En þeir sem stýra fjármálaráðuneytinu virðast áhugasamari um annað en hag skattgreiðenda og þeirra sem verðbólgan bítur helst á.

* * *

Helmingur hækkunar vegna fasteignaverðs

Í marsmánuði var mesta hækkun mánaðarverðbólgu á Íslandi frá því að Covid-19 heimsfaraldurinn braust út. Það ætti ekki að koma neinum á óvart því að húsnæðisverð hækkaði um 3,1% í mánuðinum og veldur það tæpum helmingi hækkunarinnar (0,45%) þann mánuðinn.

Seðlabankinn er heldur spar á stóryrðin um húsnæðisverðið í Peningamálum sem komu út í síðustu viku samhliða vaxtahækkuninni. Staðreyndin er sú að hið opinbera hefur algjörlega brugðist í húsnæðismálum. Ekki með skorti á sérstökum aðgerðum fyrir sérstaka hópa á sérstökum aldri með sérstakar tekjur heldur með því að láta undir höfuð leggjast að skipuleggja svæði undir íbúðabyggð.

Sérstakt innviðaráðuneyti var stofnað meðal annars til að takast á við þennan vanda. Nú, hálfu ári seinna, hefur innviðaráðherrann ekkert gert annað en að móðga framkvæmdastjóra samtaka bænda og koma fram með frumvarp um leigubíla sem mun valda áframhaldandi skorti þar eins og annars staðar þar sem framsóknarmenn koma saman.

* * *

Brandarakarlar í Svörtuloftum

Í Peningamálum segir um húsnæðismarkaðinn:

Húsnæðisverð hefur hins vegar hækkað enn frekar og nam árshækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu 22,2% í mars sl. sem er sú næst mesta síðan hún náði hámarki í maí 2017 (mynd II-12). Þar vegur lítið framboð íbúða líklega þungt en í apríl voru einungis um 1.000 íbúðir til sölu á landinu öllu samanborið við tæplega 2.200 fyrir ári og hafa ekki verið færri frá upphafi mælinga. Þetta mikla misræmi milli framboðs og eftirspurnar endurspeglast einnig í óvenjuháu hlutfalli íbúða sem seldar eru yfir ásettu söluverði en hlutfallið hefur ríflega fjórfaldast frá miðju ári 2020 og ekki verið hærra frá því að mælingar hófust (mynd II-13). Þá hefur meðalsölutími íbúða jafnframt verið með stysta móti en í mars mældist hann um 1,2 mánuðir.

Er Seðlabankinn að grínast? Lítið framboð íbúða vegur líklega þungt. Meira segja leikskólabörn sjá að skorturinn veldur þessu. Þar að segja þau sem hafa fengið pláss á leikskóla því til eru þeir í borgarstjórn sem halda að börn geti dvalið í glærum.

Tugir þúsunda manna munu flytjast til landsins samkvæmt spám Hagstofunnar og Seðlabankinn ætlar að sigla sofandi að feigðarósi, því sama og borgarstjórinn í Reykjavík hefur dvalið í lengur en menn muna.

* * *

Kjósum McDonald’s

En sá borgarstjóri mun líklega halda áfram meðal annars vegna þess að sjálfstæðismenn í Reykjavík halda að köllun þeirra sé að taka við góðu starfi McDonald’s á Íslandi, sem þó lagði upp laupana fyrir meira en áratug, en ræða alls ekki það sem máli skiptir. Lóðaskortinn, skuldasúpuna, mygluna í skólanum, braggamálið – ekki síst stráin, klúðrið í Sorpu, óskiljanlegt stjórnkerfi Reykjavíkurborgar og endalausa bið borgaranna eftir svörum við einföldum fyrirspurnum og óskum þeirra. Sá eini sem hefur einhvern lit sýnt undanfarið er fráfarandi oddvitinn Eyþór Arnalds. Þótti mörgum hann vera full lítt sjáanlegur á kjörtímabilinu og voru það helstu rökin fyrir oddvitaskiptum.

Alvöru stjórnmálamenn hefðu farið yfir loforðin og efndirnar. Eða öllu heldur skortinn á þeim. En nei. Best að steikja hamborgara. Nú hefur flest komið fram í Íslandsbankamálinu nema það hvort söluaðilarnir hafi farið á svig við lög með kaupum í útboðinu. Minnihlutinn á Alþingi hefur víst ekki heyrt um regluna að trufla ekki óvininn meðan hann er að gera mistök. Óðinn lagði það á sig að horfa á alla opna fundi fjárlaganefndar um málið. Það var ekki skemmtiefni og ljóst að gæði þingmanna jókst ekki í síðustu kosningum. Þvert á móti.

* * *

Stjörnuhrap

Þar var fátt sem stóð upp úr. Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, var ákaflega vel undirbúinn og hafði svör á reiðum höndum um allt sem máli skipti. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sömuleiðis og er honum mikil vorkunn að þurfa að svara mörgum spurningum sem að honum var beint, svo heimskulegar voru þær. Það er vægt til orða tekið að segja að Bjarni hafi haft mikla yfirburði yfir aðra þingmenn í salnum.

Það kom á óvart hvað Kristrún Frostadóttir var óörugg þegar hún spurði Bjarna – hana skorti alla yfirvegun og satt að segja hélt Óðinn að Kristrún væri mun öflugri stjórnmálamaður en þar sást. Hún hefur verið talin augljós arftaki Loga Einarssonar, verðandi, fyrrverandi formanns flokksins. Ekki er víst að hún verði stjörnustjórnmálamaður líkt og stjörnuhagfræðingur, eins og flestir töldu.

Það sem skorti við söluna á 22,5% hlut Íslandsbanka var pólitískur skilningur á hversu viðkvæmt er í augum almennings að selja eignir ríkisins. Það á ekki aðeins við einkavæðingu heldur einnig ef stofnun selur eign og ef ríkisbanki selur, eins og þegar Landsbankinn mun selja núverandi húsnæði sitt þegar bankinn flytur í dýrasta skrifstofuhúsnæði á norðurhjara veraldar. Almenningur hefur ekki nokkra einustu þolinmæði fyrir nokkrum votti af ógagnsæi, frændsemi og vankunnáttu við sölu á ríkiseignum. Ekki heldur himinháum kostnaði en það er eins og enginn hafi velt honum fyrir sér í aðdragandanum, hvorki fjármálaráðherra né stjórn Bankasýslunnar. Hvað þá þingmenn Samfylkingarinnar sem hæst gala nú.

* * *

Pólitískur dómgreindarskortur Það er hins vegar fullkomið rugl að tala um spillingu í bankasölumálinu. Miklu nær er að tala um pólitískan dómgreindarskort. Bjarni Benediktsson var með tvo af þremur stjórnarmönnum í Bankasýslunni í kallfæri. Formanninn Lárus Blöndal sem sérstakan trúnaðarmann sinn og Vilhjálm Bjarnason, fyrrverandi þingmann Sjálfstæðisflokksins. En Samfylkingin hafði líka sinn mann, Margréti Kristmannsdóttur í Pfaff. Það er fyrst og fremst á ábyrgð þessa fólks að framkvæmdin yrði eins og hún átti að vera, óaðfinnanleg.

Stjórn Bankasýslunnar hefði átt að gæta þess að þeir sem sáu um útboðið færu í einu og öllu að settum reglum. Auðvitað er það verk fjármálaeftirlits Seðlabankans, sem er eitt það stærsta í heimi samkvæmt höfðatölu, en pólitískt skipuðu stjórnarmennirnir báru ábyrgð á að framkvæmdin væri snurðulaus og eftiráskoðun fjármálaeftirlits mun ekki bæta fyrir það ef almenningi finnst þetta klúður.

Aldrei lægra hjá Gallup

Gallup kannaði hug kjósenda í mánaðarlegum þjóðarpúlsi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei mælst lægri hjá þessu könnunarfyrirtæki, eða 19,8%. Ekki einu sinni í hruninu, þegar almenningur sá þáverandi formann flokksins fullkomlega missa sjálfstraustið með því að drepa alla von í brjósti í sjónvarpsávarpi í Ríkisútvarpi vinstrimanna. Þá fór fylgið samkvæmt Gallup „aðeins“ niður í 20,6%. Óðinn er sannfærður um að Kastljósviðtal við annan formann Sjálfstæðisflokksins kvöldinu eftir hafi komið í veg fyrir mun meira fylgistap. Þar talaði fyrrverandi formaðurinn, þá seðlabankastjóri, kjark í þjóðina.

Þessi mæling Gallup er harður en réttmætur dómur svarenda. Það er hins vegar huggun harmi gegn, ekki síst fyrir þá sem „stjórna“ þessum flokki, að hann er ekki endanlegur.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .