Flugsamgöngur stuðla að hagsæld í heiminum og eru nauðsynlegar til að viðhalda alþjóðasamskiptum, viðskiptum, tengja saman menningarheima og bæta lífsgæði.

Fáar þjóðir treysta jafn mikið á flugsamgöngur og Ísland og hefur Icelandair gegnt þar lykilhlutverki í áratugi. Icelandair er það flugfélag sem flytur flesta ferðamenn til landsins og er mikilvægur atvinnurekandi hér á landi.

Það hefur því skipt sköpum fyrir endurreisn íslenskrar ferðaþjónustu, efnahagslíf og samfélagið í heild að vel hafi tekist til við uppbyggingu félagsins eftir faraldurinn.

Sveigjanleiki til að mæta vaxandi eftirspurn

Eftir að hafa lagt áherslu á að verja mikilvæga innviði og viðhalda sterkri fjárhagsstöðu á meðan á faraldrinum stóð, vorum við tilbúin að bregðast við um leið og eftirspurn tók við sér.

Síðan þá höfum við nýtt sveigjanleika okkar til að auka flugframboð hratt til að mæta mikilli eftirspurn á öllum okkar mörkuðum á þessu ári. Í lok nóvember höfðum við flutt hátt í þrefalt fleiri farþega en á sama tímabili í fyrra og þar af yfir 700 þúsund ferðamenn til landsins.

Á þriðja ársfjórðungi var sætaframboð yfir 80% af framboði ársins 2019 og í nóvember var það orðið 96%. Þá er ánægjulegt að tengiflug yfir hafið hefur náð fyrri styrk eða hátt í 40% af heildarfjölda farþega í lok nóvember. Þá héldu bæði fraktflutninga- og leiguflugsstarfssemi okkar áfram að styðja við heildartekjuöflun félagsins.

Í góðri stöðu til að bregðast við áskorunum

Líkt og flugiðnaðurinn í heild sinni höfum við staðið frammi fyrir ýmsum áskorunum á árinu. Krefjandi aðstæður á flugvöllum og brestir í aðfangakeðjum leiddu til raskana á flugi yfir háannatímann.

Við vorum hins vegar í góðri stöðu til að bregðast við þessum áskorunum þar sem öflug flugáætlun og mikil tíðni gerði okkur kleift að koma farþegum hratt og örugglega á áfangastað. Þar að auki sýndi starfsfólk okkar mikla útsjónarsemi með ýmsum aðgerðum til að lágmarka áhrif á farþega. Þá stóðum við einnig frammi fyrir áskorunum í innanlandsflugi sem við höfum öll lagst á eitt við að leysa.

Góð rekstrarniðurstaða

Árangurinn kristallaðist í uppgjöri félagsins á þriðja ársfjórðungi sem sýndi að viðskiptalíkan félagsins hefur sannað gildi sitt. Um var að ræða mikinn viðsnúning frá sama tíma í fyrra og náði félagið umtalsvert betri rekstrarniðurstöðu en helstu alþjóðleg flugfélög sem við berum okkur saman við.

Við erum þakklát fyrir það traust sem viðskiptavinir á öllum mörkuðum okkar hafa sýnt félaginu og gott samstarf við íslenska ferðaþjónustu í uppbyggingunni undanfarin misseri. Þessi góði árangur er þó fyrst og fremst afrakstur þrotlausrar vinnu okkar reynslumikla starfsfólks sem hefur staðið sig frábærlega í krefjandi aðstæðum.

Tækifæri og áskoranir framundan

Það er ljóst að rekstrarumhverfið verður áfram krefjandi með hækkandi vöxtum og verðbólguþrýstingi á okkar helstu mörkuðum. Við erum þó sannfærð um að það eru áfram mikil tækifæri fyrir Ísland sem áfangastað.

Icelandair byggir á sterkum grunni, er með sterka fjárhagsstöðu sem og öflugt leiðakerfi og sveigjanleika sem gerir okkur kleift að hreyfa okkur hratt og aðlaga þjónustu okkar og starfsemi að aðstæðum hverju sinni. Við horfum því bjartsýn fram á veginn.

Sjálfbær framtíð flugs

Ávinningurinn af flugi og ferðaþjónustu fyrir Ísland er ótvíræður og því mikið í húfi að vinna að sjálfbærri framtíð þessara atvinnugreina. Í takt við markmið alþjóða flugiðnaðarins höfum við einsett okkur að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 og sett okkur markmið um að draga úr kolefnislosun um 50% á tonnkílómetra fyrir árið 2030 miðað við 2019.

Til að ná þessum markmiðum þarf sambland aðgerða, svo sem endurnýjun flugflota, umbætur í rekstri, innleiðingu sjálfbærs eldsneytis og kolefnisjöfnun. Þá erum við einnig þátttakendur í spennandi verkefnum sem snúa að þróun á vetnis- og rafmagnsknúnum flugvélum fyrir innanlandsflug sem við teljum raunhæfa kosti á þessum áratug.

Icelandair hefur gegnum áratugalanga sögu félagsins byggt upp grunnstoðir íslenskrar ferðaþjónustu og skilur eftir sig stórt skattspor og aðrar tekjur í formi gjaldeyristekna vegna erlendra ferðamanna og útflutnings.

Forsendan fyrir því að verja þennan ávinning og stuðla að sjálfbærri framtíð eru góð rekstrarskilyrði fyrirtækja í flug- og ferðaþjónustu sem styrkja samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaðar og gera fyrirtækjum eins og Icelandair kleift að halda merkjum Íslands á lofti út um allan heim, hér eftir sem hingað til.

Greinin birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út fimmtudaginn 29. desember.