Óðinn fjallaði á miðvikudag um innflytjendur í Danmörku, framlag þeirra til samneyslunnar, glæpatíðni og margt fleira. Hér á eftir er stutt brot úr pistlinum um atvinnuþátttöku hópanna fjögurra.

Hvað skýrir muninn?

Það eru eflaust margar ástæður fyrir þeim mikla mun sem er milli þeirra fjögurra hópa danskra stjórnvalda og milli einstakra upprunalanda innflytjenda í Danmörku.

Ein af grundvallarástæðum þess að svo mikill munur er á framlagi hópanna til samneyslunnar er atvinnuþátttakan. Ef fleiri eru starfandi og færri eru atvinnulausir eða utan vinnumarkaðar eykur það skatttekjur og minnkar útgjöld í formi bóta og styrkja.

Þeir sem eru danskir að uppruna er í sérflokki. Vestrænir innflytjendur eru ekki svo fjarri með um 10% minni atvinnuþátttöku. Innflytjendur úr hinum tveimur flokkunum, frá öllum löndum utan Vesturlanda, eru þar langt á eftir.

Þeir sem koma frá MENAPT löndunum eru með 27,7% minni atvinnuþáttöku en Danir þegar þeir eru þrítugir og 44,6% minni við 55 ára aldur.

Innflytjendur frá öðrum löndum utan Vesturlanda eru hins vegar mun nær Dönum í atvinnuþátttöku. Þegar þeir eru 30 ára er þátttakan 14,6% minni en 25,6% minni þegar þeir eru orðnir 55 ára.

Umfjöllun Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið pistilinn í fullri lengd hér.