Í kjölfar flutnings vinnustöðva frá aðsetri vinnuveitanda inn á heimili starfsfólks vegna heimsfaraldursins hafa augu margra opnast fyrir fjarvinnu. Margir sjá í hillingum að vinna í auknum mæli heima í framtíðinni, og því ekki að vinna erlendis þar sem hitastigið er kannski aðeins skaplegra en yfir háveturinn á Íslandi. Fjarvinna getur verið hvort sem er innanlands eða utan. Ef þú getur skilað þínu vinnuframlagi frá heimili þínu í Hafnarfirðinum þá getur þú alveg eins skilað vinnuframlaginu frá Spáni, Færeyjum eða hvaðan sem er í heiminum. Oft á tíðum er gott netsamband það eina sem þarf.

Það eru þó ýmis skattaleg álitamál sem þarf að huga að þegar kemur að fjarvinnu erlendis. Það hvort laun starfsfólks eru skattskyld í vinnulandi vegna fjarvinnu í öðru landi en því sem vinnuveitandinn er heimilisfastur ræðst af nokkrum þáttum. Nauðsynlegt er vita hvort til staðar sé tvísköttunarsamningur á milli vinnulandsins og landsins sem vinnuveitandinn er heimilisfastur í, hvort tímabil fjarvinnu sé meira eða minna en 183 dagar og svo skiptir máli hvort vinnuveitandinn er með fasta starfsstöð í vinnulandinu.

Ef til staðar er tvísköttunarsamningur og dvöl launþega í vinnulandinu er undir 183 dögum þá eru laun starfsfólks í flestum tilfellum ekki skattskyld í vinnulandinu að því gefnu að vinnuveitandinn sé ekki með fasta starfsstöð í vinnulandinu.

Launþegi íslensks launagreiðanda

Dvelji starfsfólk íslensks launagreiðanda erlendis við störf í meira en 183 daga og til staðar er tvísköttunarsamningur þá ber starfsfólki að sækja um undanþágu frá skattlagningu launatekna á Íslandi skv. tvísköttunarsamningi. Sótt er um undanþáguna til embættis ríkisskattstjóra. Undanþágan undanþiggur launagreiðandann frá því að halda eftir og skila staðgreiðslu og launatengdum gjöldum á Íslandi.

Launþeginn getur óskað eftir að vera áfram almannatryggður á Íslandi þrátt fyrir fjarvinnu erlendis og þarf þá að sækja um A1- vottorð til Tryggingastofnunar Ríkisins. Launagreiðandinn þarf þá að greiða tryggingagjald og lífeyrissjóðsiðgjöld á Íslandi og er yfirleitt undanþeginn greiðslu slíkra gjalda í vinnulandinu. Vinnuveitandinn eða launþeginn þarf í þessu tilfelli að skila staðgreiðslu og launatengdum gjöldum í vinnulandinu.

Það er mismunandi eftir löndum hvort launþegi í fjarvinnu fyrir íslenskan vinnuveitanda getur skilað staðgreiðslu og launatengdum gjöldum sjálfur líkt og gert er á Íslandi eða hvort íslenski vinnuveitandinn þarf að vera skráður á launagreiðendaskrá viðkomandi lands og skila staðgreiðslu og launatengdum gjöldum. Svo virðist sem fleiri lönd en færri geri kröfu um að launagreiðandinn sjái um skil á staðgreiðslu og launatengdum gjöldum.

Sem dæmi má nefna að Svíþjóð breytti reglunum hjá sér hvað þetta varðar í byrjun janúar 2021. Fyrir þann tíma gat launþeginn séð um skil á staðgreiðslu og launatengdum gjöldum en eftir þann tíma þarf íslenski launagreiðandinn að skrá sig á launagreiðendaskrá hjá sænskum skattyfirvöldum og skila staðgreiðslu og launatengdum gjöldum.

Skattkerfin eru jafn misjöfn og löndin eru mörg og skatthlutföll mismunandi sem og launatengdu gjöldin. Það eru ekki einungis skattskilin sem þarf að huga að því einnig gæti þurft að skoða atvinnuog dvalarleyfi, kjarasamninga í vinnulandi og fleira.

Launþegi erlends launagreiðanda

Í heimsfaraldrinum varð aukning á fjölda starfsfólks erlendra launagreiðenda á Íslandi. Í mörgum tilfellum var um að ræða Íslendinga sem höfðu verið búsettir erlendis og ákváðu að koma heim í faraldrinum en einnig erlenda ríkisborgara í fjarvinnu á Íslandi fyrir erlendan vinnuveitanda.

Þegar launagreiðandi er ekki með fasta starfsstöð á Íslandi og er ekki með íslenska kennitölu er það launþeginn sjálfur sem sér um að skila staðgreiðslu og launatengdum gjöldum á Íslandi fyrir hönd hins erlenda launagreiðenda.

Launþeginn er þá skráður á launagreiðendaskrá íslenskra skattyfirvalda sem „launþegi erlends launagreiðanda" og staðgreiðslu, tryggingagjaldi og lífeyrisiðgjöldum er skilað á kennitölu launþegans. Skattskilin sem slík eru tiltölulega einföld og framkvæmdin skýr.

Auk skattskila launþegans þarf að huga að því hvar viðkomandi starfsmaður er almannatryggður sem og atvinnu- og dvalarleyfi ef einstaklingur með ríkisfang utan EES flytur til Íslands til starfa hér á landi.Einstaklingar með lögheimili á Íslandi eru almannatryggðir á Íslandi ef þeir hafa búið á Íslandi lengur en sex mánuði.

Einstaklingar sem flytjast til Íslands frá EES-svæðinu geta sótt um að vera almannatryggðir á Íslandi frá fyrsta degi en einstaklingar sem flytjast frá löndum utan EES þurfa að bíða í 6 mánuði til að vera almannatryggðir á Íslandi. Einnig geta einstaklingar sem flytjast til Íslands frá EES-svæðinu óskað eftir að vera áfram almannatryggðir í heimalandi sínu með því að sækja um A1-vottorð í heimalandinu og greiða þá gjöld sambærileg tryggingagjaldi og lífeyrissjóðsiðgjaldi einungis í heimalandinu.

Í upphafi skyldi endinn skoða

Það er ljóst að það er að mörgu að huga þegar kemur að því að vinna erlendis þó að það sé aðeins í stuttan tíma í senn og vinnuveitandi sé ekki með fasta starfsstöð í vinnulandinu. Það er mjög mikilvægt að starfsfólk kynni sér strax í upphafi þær reglur sem eiga við um skattheimtu af tekjum vegna fjarvinnu. Því þó að allt sé í heiminum hverfult þá er líklega eitt af því fáa sem hægt er að stóla á, að það þarf að borga skatta með einum eða öðrum hætti.

Höfundur er verkefnastjóri hjá KPMG Law.