Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar má lesa um ýmis hindurvitni. Ein af þeim frægustu er að ef maður nefnir nafn Gunnars Smára Egilssonar þrisvar sinnum fyrir framan spegil á fullu tungli þá birtist Andri Sigurðsson, vefhönnuður Eflingar, umsvifalaust og les yfir hausamótunum á manni. Undirritaður getur staðfest að hér er ekki um hindurvitni að ræða heldur blákaldan veruleika.

Í síðasta fjölmiðlapistli var vikið að skattamálum og nafn Gunnars Smára Egilssonar, áhrifavalds á samfélagsmiðlum og stofnanda Sósíalistaflokksins, nefnt þrisvar. Í framhaldi steig téður Andri Sigurðsson fram undir flaggi Jæja-hópsins svokallaða en hann hefur sérhæft sig í að dreifa nafnlausum áróðri á samfélagsmiðlum sem eru svo skreyttir með frekar vafasömu myndefni. Þeir sem hafa fylgst með áróðri Jæja-hópsins á Facebook gegnum tíðina vita að erindi hópsins er fyrst og fremst rangtúlkanir og upplýsingaóreiða í þágu einhverra pólitíska markmiða.

***

Í síðasta pistli var fjallað um fréttaskýringu sem birtist á Vísi þar sem byggði á stórum hluta á sjónarmiðum Gunnars Smára og þeirri skoðun hans að skattakerfið hér á landi hygli þeim sem hafa meira milli handanna á kostnað hinna eignaminni. Eins og bent var á á þessum vettvangi byggir þessi skoðun ekki á staðreyndum. Í fjölmiðlapistlinum sagði:

Á þriðjudag birtist frétta-skýring á Vísi og virðist tilefni hennar hafa verið að Gunnar Smári birti aðsenda grein á miðlinum fyrr um daginn. Í þeirri grein gerist Gunnar sekur um ýmsar rangfærslur um skattkerfið í þeim tilgangi að draga fram mynd af meintu ranglæti á milli þeirra efnuðu og þeirra sem minna hafa milli handanna í skattkerfinu.

Í stuttu máli felst ranglætið í því að þeir efnuðu borga 22% fjármagnstekjuskatt en ekki 46% skatt eins og launþegar. Bæði Ólafur Björn Sverrisson, sem skrifar fréttina, og Gunnar Smári skauta hins vegar alfarið fram hjá þeirri staðreynd að flestir þeir sem hafa fjármagnstekjur sem einhverju máli skipta eru með eignir sínar í félögum sem borga svo tekjuskatt af hagnaði þegar vel árar. Samanlagt hlutfall þeirrar skattheimtu og fjármagnstekjuskattsins er því hærra en neðsta tekjuskattsþrepið og litlu lægra en milliþrepið.“

Þessi skrif virðast hafa farið fyrir brjóstið á Jæja-hópnum sem fór að dreifa myndefni af undirrituðum undir fyrirsögninni Tvísköttunarmýta auðvaldsins. Með þessu myndefni fylgdi svo hlekkur á grein sem birtist á vefsíðu Jæja-hópsins og er rituð af áðurnefndum Andra. Þrátt fyrir að slík skrif séu utan umfjöllunarsvið þessara pistla er ástæða til þess að fjalla um þau í þetta sinn þar sem þau sýna hvernig skipuleg upplýsingaóreiða getur fest sig í sessi í hinni pólitísku umræðu á vettvangi fjölmiðla.

***

Í greininni á vefsíðu Jæja-hópsins segir:

Vinsæl mýta meðal hægrisins er sú að fjármagnstekjuskattur sé í raun tvísköttun því fyrirtæki hafi þegar greitt af þessum peningum skatt. Undanfarnar vikur hafa fjölmiðlar fjallað um tekjur helstu auðmanna landsins og hvað þeir greiði mikið eða lítið í skatta. Gunnar Smári Egilsson skrifaði við það tækifæri grein og sýndi fram á hvernig margt auðfólk greiðir í raun lægra hlutfall af sínum tekjum í skatt en venjulegt launafólk. Hægrið vill hins vegar halda því fram að þegar kemur að arðgreiðslum og fjármagntekjuskjatti einstaklinga eigi að taka með í reikninginn skattgreiðslur fyrirtækisins sem greiddi arðinn.

Þetta verður að teljast merkileg skoðun þar sem fyrirtæki hafa sína eigin kennitölu og um þau gilda sérstök skattalöggjöf. Þegar fyrirtæki skila tapi eða fara á hausinn bera eigendur þeirra enga ábyrgð samkvæmt lögum um takmarkaða ábyrgð einkahlutafélaga. Þegar dæminu er hinsvegar snúið við og fyrirtæki skilar hagnaði þá vill hægrið líta svo á að fyrirtækið og eigandinn séu einn og hinn sami. Hentugt ekki satt?“

Í þessu samhengi má rifja upp viðtal við Þórólf Matthíasson, prófessors í hagfræði við Háskóla Íslands, í morgunútvarpi Rásar 2. Tilefni viðtalsins voru áðurnefnd greinaskrif Gunnars Smára. Þórólfur verður seint sakaður um að vera sérstakur málsvari hægri stefnu í skattamálum. En í viðtalinu útskýrir hann ágætlega hvers vegna framsetning Gunnars Smára er í besta falli blekkjandi.

Reyndar var það eftirtektarvert að eftir að Þórólfur hafði hrakið þá fullyrðingu að hinir efnameiri borgi hlutfallslega mun minna til samfélagsins en hinir efnaminni spurði annar þáttastjórnanda hann hvort kerfið væri samt ekki óréttlátt gagnvart þeim sem verr standa. En það er önnur saga.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Pistilinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 1. september 2022.