Kaupaaukakerfi fjármálafyrirtækja geta haft mörg markmið. Hrafnarnir telja einsýnt að markmið kerfisins hjá Kviku hafi verið að gera lykilstarfsmenn nægilega efnaða til að þeir treysti sér til að láta af störfum og fara gera eitthvað skemmtilegra. Kerfi Kviku er afar skilvirkt. Í sumar létu þeir Stefán Eiríkur Stefánsson, Ólafur Bjarki Ágústsson og Jón Rúnar Ingimarsson af störfum. Þá færði Skúli Hrafn Harðarson sig yfir til LSR á dögunum og nú í vikunni hættu Baldur Stefánsson og Ragnar Dyer hjá bankanum.

En hrafnarnir vita að það kemur maður í manns stað og benda á að markaðsvirði bankans hefur hækkað um einn og hálfan milljarð frá því að Magnús Þór Gylfason, fyrrverandi forstöðumaður samskipta hjá Landsvirkjun, réði sig til starfa á skrifstofu forstjóra Kviku.