Kommúnisminn á sér fáa talsmenn í dag á Íslandi þótt enn séu einhverjir eftir í austri. Nútíma vinstrimenn á Íslandi hafa dregið víglínuna við að ríkið greiði ekki aðeins fyrir kerfin, heldur reki kerfin. Heilbrigðiskerfið, menntakerfið, tryggingarkerfið og hin kerfin sem eru orðin svo stór að umfangi að enginn hefur lengur yfirsýn yfir þau. Kerfin sem virka ekki miðað við allt það fjármagn sem lagt er í þau. Kerfin sem ríkisfjölmiðillinn, sem kostar skattgreiðendur fimm milljarða á ári, fjallar nær daglega um að vanti meiri peninga frá skattgreiðendum í.

Sumir þessara nútíma vinstrimanna hafa lítið sjálfstraust og vilja heldur að valdboðið komi að utan, frá Evrópusambandinu.

Í Frjálsri verslun er fjallað um viðskipti okkar við Rússland.

Útflutningur Íslendinga til fyrrum Sovétlýðveldanna fór mjög hægt af stað aftur. Efnahagur flestra ríkjanna var í rúst. Það var ekki fyrr en rússneskt efnahagslíf fór að taka við sér í kringum aldamótin, sem útflutningurinn fór að aukast. Árið 2006 fór hann í 3,7% af heildarútflutningi Íslendinga, árið 2010 í 4,2% en hæst fór hann í 7,2% árið 2014. Árið 2020 nam hann 3,2%.

Rússland vó langþyngst árið 2014 með 5,4% af öllum útflutningsverðmætum Íslendinga. En árið eftir helmingaðist útflutningurinn til Rússlands vegna þátttöku Íslands í efnahagsþvingunum Evrópusambandsins vegna innrásar Rússa á Krímskaga. Nam útflutningurinn til Rússlands aðeins 0,5% árið 2016 og hefur verið tiltölulega lítill síðan.

Evrópusambandslöndin hafa átt í miklum viðskiptum við Rússland þrátt fyrir viðskiptabannið. Evrópusambandslöndin kaupa enn mikið af gasi og olíu frá Rússlandi. Árið 2020 var 29% af allri olíu innflutt frá Rússlandi, 43% af gasi og 54% af kolum. Þrátt fyrir innrás Rússa í Úkraínu, sem hófst 24. febrúar, eru enn stunduð viðskipti við Rússland.

En viðskipti Evrópusambandslandanna snúa ekki einungis að kaupum á hrávöru. Til að mynda gerði þýska stórfyrirtækið Siemens 580 milljarða króna samning (4,5 milljarðar dala) um háhraðalestir í Úral árið 2010. Sá samningur hélt þrátt fyrir viðskiptabannið.

Í apríl 2022 kom fram að Þjóðverjar, Frakkar og átta aðrar Evrópuþjóðir seldu Rússum vopn fyrir 40 milljarða króna (300 milljónir Bandaríkjadala) eftir árið 2014 og er talið að vopnin séu í dag notuð í innrásinni í Úkraínu.

***

Svik Evrópusambandsins

Óðinn gagnrýndi harðlega þátttöku Íslendinga í aðgerðum Evrópusambandsins. Ekki vegna þess að honum þótti ekki ástæða til að styðja Úkraínumenn, heldur vegna þess að aðgerðirnar voru klæðskerasaumaðar af Evrópusambandinu til að hafa sem minnst áhrif á viðskiptin.

En ekki óraði Óðin fyrir því að frá árinu 2014 væru Evrópuríkin enn að selja vopn til Rússlands, sem leyniþjónustur þessara sömu ríkja telja að beitt sé nú í ömurlegu stríði Rússa við Úkraínumenn.

Evrópusambandið hefur algjörlega brugðist. Það er ekki bara sambandinu sjálfu að kenna heldur algjöru forystuleysi í helstu aðildarríkjunum.

Hér geta áskrifendur lesið Óðinn í heild sinni hér. Skoðanapistillinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 30. júní 2022.