Lausnin við verðbólgunni er fundin: Fyrirtæki og stofnanir hækka einfaldlega ekki verð. Þessi lausn hefur legið í augum uppi allan tímann. Hví hefur hún ekki notið þeirra vinsælda sem hún á skilið?

Einhverjir hafa talað um „hagnaðardrifna verðbólgu”. Verðbólga er reyndar alltaf hagnaðardrifin að því leyti að stundum þarf að hækka verð til að tryggja hagnað. Það er nefnilega svo að eigendur fyrirtækja, hvort sem það eru sjóðsfélagar í lífeyrissjóðum eða aðrir, gera kröfu um ávöxtun af fjárfestingum sínum. Annað myndi líklegast ekki ganga til lengdar.

Þrátt fyrir heimsfaraldur var rekstrarumhverfi margra fyrirtækja á innanlandsmarkaði hagfellt á árinu 2021 og var hagnaður víða með ágætum. Velta í heild- og smásölu jókst um 14% milli ára en verðbólga án húsnæðis var þá aðeins 3,8%. Hagnaðurinn á árinu 2021 skýrðist því af auknum umsvifum, en ekki verðlagshækkunum.

Þegar kemur að kostnaðarliðum er því fátt sem vinnur með fyrirtækjum þessa dagana.

Síðan þá hafa rekstrarskilyrði almennt færst til verri vegar. Neyslan er víða enn mikil en húsnæðiskostnaður hefur hækkað sem og verð innfluttra vara. Stýrivextir hafa hækkað úr 0,75% í 8,75%. Laun hafa hækkað um 25%! Tilkynnt hefur verið um hækkun skatta. Þegar kemur að kostnaðarliðum er því fátt sem vinnur með fyrirtækjum þessa dagana. Hagræðingartækifærin í kjölfar faraldurs eru víða upp urin og væntingar fyrirtækja til náinnar framtíðar hafa versnað.

Ef fyrirtæki slepptu því einfaldlega að hækka verð þegar kostnaður þeirra eykst væri vissulega engin verðbólga. Vandinn er sá að þá væri líklega heldur enginn rekstrargrundvöllur. Væri ekki frekar hægt að taka á einhverjum af þessum kostnaðarliðum? Kannski væri það lausnin.