Nýlega sagði Sam Altman, forstjóri OpenAI, fyrirtækisins á bak við ChatGPT, að 95% þeirra verkefna sem í dag eru unnin af markaðs- og auglýsingastofum og sérfræðingum í strategíu verði unnin af gervigreind. Hann lýsir heimi þar sem gervigreindin er ekki bara mikilvæg heldur ráðandi í markaðsstarfinu.

Gervigreindarforrit á borð við ChatGPT og Jasper eru að endurskilgreina markaðsstarfið, en við erum rétt að byrja að sjá hvað gervigreindin getur gert. Í dag getur hún unnið allt frá greiningu gríðargagna til einfaldra verkefna eins og sjálfvirkra stærðarbreytinga á myndum. Á morgun, hver veit? Einu takmarkanirnar eru ímyndunaraflið okkar.

Gervigreind fyrir alla

Frá upphafi hefur stafræn markaðssetning þróast hratt. Í dag þykir okkur ekki tiltökumál að risar á borð við Google og Meta noti gervigreind m.a. fyrir uppboð og bestun auglýsinga á netinu. Með tilkomu gervigreindarlausna á borð við ChatGPT hefur þróunin í markaðsstarfinu náð ljóshraða. Það sem meira er, gervigreindin hefur verið sett í hendur okkar allra.

Frá strúktúr til flæðis

ChatGPT, Gemini, Claude o.fl. eru dæmi um skapandi gervigreind. Hún getur búið til texta, myndir, myndbönd, kóðað og jafnvel samið tónlist. Áður var almennt notast við ákvarðanatré sem forritarar höfðu skilgreint með „ef þetta þá þetta” reglum. Möguleikarnir voru þannig takmarkaðir við þann ramma sem forritarinn hafði sett. Skapandi gervigreind þarf bara upplýsingarnar en getur síðan nýtt þær óháð reglum. Þessi grundvallarmunur fjarlægir rammann og möguleikarnir verða óendanlegir. Gervigreindin er samt ekki fullkomin, frekar en við mannfólkið. Hún veit bara það sem henni hefur verið sagt og kennt, hún getur misskilið og stundum svarað með bulli. En við mannfólkið eigum líka til að gera það.

Frá sjálfvirknivæðingu til sköpunar

Sjálfvirknivæðing og aukin afkastageta með gervigreind gefa okkur meiri tíma fyrir sköpun og strategíu. Með samstarfi manneskju og skapandi gervigreindar má enn frekar bæta afrakstur þeirrar sköpunargáfu og strategíu, allt frá framleiðslu á efni, til sviðsmyndagreininga til bættrar upplifunar viðskiptavina og svo mætti lengi telja.

Samstarf er lykilorðið. Við getum ekki notað efnið óbreytt. Við getum notað það sem grunn sem við vinnum svo áfram og það er mikilvægt að líta efnið gagnrýnum augum. Gervigreind er í dag eins og reiknivél fyrir stærðfræðing; hún getur flýtt fyrir og auðveldað verkefnin, en ef þú skilur ekki stærðfræðina þá er reiknivélin gagnslaus. Þróunin er hins vegar hröð og það kemur að því að hún þarfnast okkar ekki lengur.

Spjall sem eykur sölu

Dæmi frá einu öflugasta markaðsfyrirtæki heims, HubSpot, gefa innsýn í möguleikana sem skapandi gervigreind felur í sér fyrir stafræna markaðssetningu.

Ný gervigreindarspjallmenni HubSpot geta nú metið fyrirspurnir og sparað starfsfólki tíma með því að svara einfaldari spurningum. Enn verðmætara er að þau geta greint hvar viðmælandinn er staddur í kaupferlinu og hvort það er þess virði að vísa þeim til sölufólks. Af þeim mögulegu viðskiptavinum sem send voru til söluteymisins jókst hlutfallið af líklegum kaupendum (qualified leads) um 43%. Þetta gerði samtöl sölufólks verðmætari og hlutfall sölu jókst markvert. Virði hvers spjalls jókst um 50%!

Raunverulega persónusniðin markaðssetning

Persónusniðin markaðssetning hefur þegar sýnt hversu áhrifamikil hún er. Með því að aðlaga skilaboð að mismunandi markhópum eykst ekki bara tryggð og ánægja, það skilar sér líka í sölu og bættri arðsemi. Hingað til hefur bara verið hægt að flokka fólk í hópa, sem takmarkar aðlögun skilaboðanna. Skapandi gervigreind getur raunverulega sniðið efni alveg niður á einstakling. Hver einstaklingur fær þannig akkúrat réttu skilaboðin, sem hefur sterkari áhrif og skilar sér í meiri sölu.

Sérstaklega fyrir kaffihúsið

HubSpot eru leiðandi í markaðssetningu með tölvupósti. Þau voru hætt að sjá marktækan árangur af bestun með því að sérsníða. Með gervigreindinni tóku þau ótrúlegt stökk.

Fyrirtækið safnar miklum gögnum til að skilja þarfir gesta á vefnum, allt frá því hvaða efni þeir skoða og ná í, til upplýsinga úr póstlistaskráningu. Gervigreindin getur nú bæði greint hver tilgangurinn er með heimsókninni og veitt hverjum einstaklingi sérsniðna aðstoð í samræmi við það. Þetta hjálpar síðan HubSpot að leiða viðkomandi áfram í kaupferlinu.

Dæmi um þessa ótrúlega persónusniðnu nálgun er þegar gervigreindin aðstoðaði kaffihúsaeiganda. Hún sá að eigandinn hafði skráð sig til að fá efni um áhrifavalda. Í skráningunni var vefslóðin og út frá vefsíðunni sá gervigreindin að fyrirtækið var lítið kaffihús. Þegar eigandinn sýndi síðan áhuga á efnismarkaðssetningu bauð gervigreindin henni námskeið í efnismarkaðssetningu fyrir smásölu. Gervigreindin skrifaði síðan sérsniðinn texta fyrir tölvupóstinn til hennar og notaði m.a. orð á borð við, „breyttu hverjum sopa í sögu”!

Þessi sérsniðna nálgun skilaði árangri svo um munar: Opnanir á tölvupóstum jukust um 30%, smellir á tengla jukust um rúmlega 50% og það sem er enn merkilegra, 82% fleiri tóku það skref sem HubSpot vildu að þau tækju næst, hvort sem það var að skrá sig á námskeið eða hlaða niður efni.

Breyttar leikreglur

Gervigreindin hefur þegar breytt leikreglunum, en þetta er bara byrjunin. Í dag þarf markaðsfólk oft að vinna með hönnuðum, ráðgjöfum, framleiðendum o.fl. til þess að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Kieran Flanagan, markaðsstjóri Zapier, vill meina að í framtíðinni þurfum við markaðsfólk með djúpa þekkingu og skilning á grundvallar markaðsfræðunum og breiða þekkingu í markaðsaðgerðum, sem kunna að nýta gervigreindina sem samstarfsaðila. Gervigreindin sinni sérfræðiverkefnum allt frá textagerð og hönnun til flókinna greininga og stefnumótunar. Þannig verður markaðsfólkið ekki eins háð öðrum og auðveldara fyrir þau að gera hugmyndir að veruleika.

Það sem meira er, Sam Altman, forstjóri OpenAI, spáir að eftir um 5 ár verði alhliða gervigreind (Artificial General Intelligence) að veruleika. Gervigreind sem getur hugsað eins og manneskja og lært sjálf, án kennslu frá okkur. Það verður risastökk frá skapandi gervigreind til alhliða gervigreindar, frá því að vera bara verkfæri yfir í að verða einskonar yfirburðar markaðssérfræðingur sem sameinar mannlega innsýn og færni við tæknilega getu langt umfram mannlega hæfni. Ef skapandi gervigreind getur í dag bætt árangurinn um 30%, 40% og jafnvel yfir 80% líkt og dæmið frá HubSpot sýnir, hvað mun alhliða gervigreindin geta gert? Og hvað ætlum við að gera með henni?

Framtíðin bíður ekki

State of Marketing Report segir að 64% markaðsfólks á heimsvísu noti gervigreind og sjálfvirknivæðingu. Í könnun Statista á síðasta ári sögðu 2% bandarísks markaðsfólks að þau væru ekkert spennt fyrir gervigreind. Þessi 2% ættu strax að byrja að leita að annars konar starfi.

Það felst meiri hætta í að hunsa gervigreindina en í tækninni sjálfri. Viðhorf til hennar, aðlögunarhæfni og vilji til að læra skipta sköpum bæði fyrir markaðsfólk og fyrir fyrirtækin sem þau vinna fyrir. Bilið á milli þeirra sem vinna með gervigreindinni og þeirra sem gera það ekki mun stækka á ógnarhraða og verða mjög fljótt óyfirstíganlegt. Spurningin er hvoru megin við bilið ætlar þú að vera?

Þóranna K. Jónsdóttir er Digital Marketing Strategist. Greinin er skrifuð með aðstoð ChatGPT, Gemini og Google Search.

Greinin birtist í sérblaði sem gefið var út vegna afmælisráðstefnu SVÞ. Áskrifendur geta lesið blaðið hér.