Leiðarar ársins tóku fyrir stærstu mál á hverjum tíma eins og venja er og tilefni var til. Hér getur að líta þá fimm sem mest voru lesnir á árinu sem er að líða.

1. Firring forystu Eflingar

Síaukin harka og óbilgirni einkenndi samningaviðræður Samtaka atvinnulífsins og Eflingar í upphafi ársins, sem að lokum endaði með skæruverkföllum sem til stóð að svara með verkbanni – verkfæri sem ekki hafði verið látið glitta í síðan á síðustu öld – áður en samningar loks náðust. Orðræða forystu Eflingar var hér til umræðu.

2. Aftur til fortíðar

Þegar allt var komið í bál og brand í áðurnefndri vinnudeilu og samfélagið farið að horfa fram á verulega röskun og skaða voru orð Jóhannesar heitins Nordal um skipulag og áhrif vinnudeilna hér á landi um miðbik síðustu aldar, sem allt eins hefðu getað verið skrifuð í dag, rifjuð upp.

3. Blikur á lofti

Bráður fjárhagsvandi sveitarfélagsins Árborgar var hér tekinn fyrir og borinn saman við dræma fjárhagsstöðu fleiri sveitarfélaga og sá hallarekstur sem að baki stóð, auk hallans á rekstri ríkissjóðs, settur í samhengi við ofþenslu og þráláta verðbólgu sem þarna var í hæstu hæðum.

4. Staðreyndir um snjóhengjuna

Hin svokallaða vaxtasnjóhengja hjá heimilum með íbúðalán á föstum vöxtum sem senn kæmu til endurskoðunar var hér í brennidepli, þar sem gerð var tilraun til að skilja kjarnann frá hisminu og benda á stöðuna eins og hún var og er í stóra samhengi hlutanna.

5. Stjórnendur Íslandsbanka rúnir trausti

Hér var brugðist við þeim áfellisdómi sem þá nýbirt skýrsla Fjármálaeftirlitsins um framkvæmd Íslandsbanka á útboði eigin bréfa í mars í fyrra var yfir áhættumenningu bankans, og þeirri léttúð sem virtist einkenna opinber viðbrögð stjórnenda hans þegar sáttin við eftirlitið var gerð opinber.