Gervigreindarspjallmennið ChatGPT hefur heldur betur hrist upp í tækniheiminum undanfarið. Risinn Google hefur vaknað af værum svefni og í kjölfarið tilkynnt þróun á eigin gervigreindarspjallmenni, Bard. Lítið nýtt hefur komið frá Google upp á síðkastið svo þetta eru spennandi tímar fyrir okkur tækninördana.

Gervigreindarspjallmenni geta svarað spurningum og fyrirmælum nánast eins og rætt sé við alvitra manneskju. Þau geta gefið svör við öllu mögulegu, hjálpað forriturum að skrifa kóða og námsmönnum við ritgerðarskrif. Einhverjum þykir það ógnvænleg tilhugsun, að námsmenn dagsins í dag komist auðveldar í gegnum námið en við gerðum á okkar námsárum. En rétt eins og bíllinn leysti hestinn af hólmi getur tæknin bætt líf okkar. Ef við hræðumst ekki breytingar heldur nýtum þær getum við skapað virði fyrir allt samfélagið.

Skólar hafa breytt kennsluháttum til að koma í veg fyrir notkun spjallmennanna. Spjallmenninn eru þó bara tól til að hjálpa fólki að komast að betri niðurstöðu og vinna hraðar. Frekar en að óttast og banna hluti eigum við að njóta tækniframfaranna og læra að nýta þær til fulls. Rétt eins og tilkoma vasareiknis leiddi til breytinga í stærðfræðikennslu ætti að kenna nemendum að nota gervigreind við verkefnaskil.

Tæknin er ekki óskeikul og tölvur vita ekkert um siðferði og sannleika. Spjallmennin geta dælt út vanþekkingu og falsfréttum á áður óþekktum hraða. Gagnrýnin hugsun verður aldrei mikilvægari en með tilkomu gervigreindar. Gagnrýnin hugsun, lestur og lesskilningur eru undirstaða alls. Þau sem ekki geta lesið sér til gagns og spurt gagnrýnna spurninga munu ekki geta notað gervigreindar spjallmenni vel. Það er því mikilvægar nú en nokkurn tímann áður að hlúa að þessum þáttum svo við getum notið tækninnar í stað þess að óttast hana.

Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 16. febrúar 2023.