Félag atvinnurekenda, Neytendasamtökin og VR fengu ráðgjafarfyrirtækið Analytica til þess að reikna út fyrir sig hvert heildartjónið var vegna meints samráðs Eimskips og Samskipa á árunum 2008 til 2013. Niðurstaðan var kynnt í síðustu viku og er sláandi svo ekki sé sterkar að orði kveðið: Tjónið er metið á 62 milljarða.

Að sjálfsögðu fluttu fjölmiðlar af þessu fréttir og töluðu við fólk sem var alls ekki hresst með þetta mikla tjón. Þó það nú væri. Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, var spurð spjörunum úr í síðdegisþætti Rásar 2 um möguleika íslensku þjóðarinnar til hópmálssóknar og Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, svaraði sambærilegum spurningum í flestum miðlum.

***

Engum fjölmiðli datt hins vegar í hug að skoða ofan í kjölinn hvernig þessir 62 milljarðar eru til komnir þrátt fyrir að greiningin í heild hefði fylgt fréttatilkynningunni. Það er sérlega undarlegt í ljósi þess að þrenn hagsmunasamtök létu gera greininguna sem komst að þessari niðurstöðu.

Í inngangsorðum að greiningu Analytica eru dregin fram ákveðin atriði sem gefa ástæðu til þess að stíga fæti varlega til jarðar – sérstaklega þeim sem hafa lært að efast um óskeikulleika Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra Samkeppniseftirlitsins. Þar segir

Sérstaklega var tekið fram að óskað væri eftir mati á áhrifum samráðsins á vísitölu neysluverðs. Ósk verkbeiðanda var um að á þessu stigi yrði matið byggt á tiltölulega einfaldri nálgun og miðað við gögn sem finna mætti í skýrslu SE. Er þetta mat Analytica því kallað frummat.

Það sem skiptir máli þarna er að Félag atvinnurekenda, Neytendasamtökin og VR óska sérstaklega eftir því að Analytica styðjist einungis við niðurstöðu sem birtist í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til þess að reikna út áhrif meints samráðs á þróun vísitölu neysluverðs á meðan það átti að hafa staðið. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins hefur verið harðlega mótmælt af Samskipum, verðlagsútreikningar eftir-litsins gagnrýndir og sagðir úr samhengi við raunveruleikann ásamt því að ákvörðunin hefur verið kærð til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

Það er því vægast sagt hjákátlegt að sjá FA, Neytendasamtökin og VR staldra við málið á stað sem hentar þeim best og byrja að reikna út bætur áður en lengra er haldið.

***

Í greiningu Analytica er stuðst alfarið við útreikninga Samkeppniseftirlitsins og unnið út frá því að það sé staðreynd að verðskrá Samskipa bæði fyrir útflutning og innflutning hafi hækkað mikið á umræddu tímabili. Útflutningur hækkar um 44% og innflutningur um 63% á meðan vísitala neysluverðs hækkar um 36%. Þetta gerir 5,6% og 19,2% hækkun á föstu verðlagi.

Verulegur hluti hækkunar gjaldskránna umfram vísitölu neysluverðs kemur hins vegar strax á fyrstu mánuðum meints samráðstímabils, á seinni hluta ársins 2008. Væri samanburðartímabilið látið hefjast rétt upp úr áramótum 2009 eftir þessar hækkanir verður heildarhækkun útflutningsverðs þess í stað 18% og 26% fyrir innflutningsverð á meðan vísitala neysluverðs hækkar um 24%. Á föstu verðlagi verða þetta þá 1,6% verðhækkun innflutnings en 4,8% lækkun á verðskrá fyrir útflutning.

Eins og meðal annars hefur komið fram í umfjöllun Viðskiptablaðsins um málið lítur Samkeppniseftirlitið algjörlega fram hjá þeirri staðreynd að haustið 2008 féll gengi íslensku krónunnar um 50% á örfáum mánuðum og að olíuverðið sveiflaðist gríðarlega bæði vegna óvissu í heimsbúskapnum og vegna veikingar krónunnar. Samkeppniseftirlitið virðist rekja öll áhrif vegna þessara þátta alfarið til meints samráðs.

Einnig virðist Samkeppniseftirlitið ekki líta til þeirrar staðreyndar að það eru flutningsgjöld í erlendri mynt sem skipta sköpum í rekstri skipafélaga. Þess vegna eru samningar um sjóflutninga gerðir upp í erlendri mynt. Sjóflutningsgjöld í evrum lækkuðu á hinu meinta samráðstímabili og auðvitað hækkuðu þau þá í krónum taliðþ Samkeppniseftirlitið horfir eingöngu á það síðarnefnda.

Með öðrum orðum þá er ýmislegt sem orkar tvímælis í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, enda er hún svipuð að burðum og heildarritsafn Envars Hoxha þó svo að hún fari ekki jafn vel í hillu. Enda er málinu ekki lokið þar sem Samskip áfrýjuðu til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Nefndin er nú þegar búin að fresta réttaráhrifum 4,2 milljarða króna sektar eftirlitsins þar til endanleg niðurstaða fæst í málið.

Samkeppniseftirlitið hefur ekki reynst óskeikult gegnum tíðina og það ættu félagsmenn í Félagi atvinnurekenda, Neytendasamtökunum og VR að vita. Það er svo sem ekkert athugavert við að slík samtök láti ráðgjafarfyrirtæki á borð við Analytica gera skýrslu á borð við þá sem um ræðir.

Ef þau telja það þjóna hagsmunum sínum að slík skýrsla sé byggð á umdeilanlegum forsendum sem er að finna í skýrslu Samkeppniseftirlitsins þá er ekkert við það að athuga. Það er að vísu athyglisvert hagsmunamat í tilfelli Félags atvinnurekenda að ræða en látum það liggja milli hluta.

En fjölmiðlar verða að átta sig á að plaggið er hluti af málarekstri þessara þriggja hagsmunasamtaka og ekki má líta á það sem heilagan sannleik um hvað meint samráð hafi kostað neytendur þessa lands. Þeir féllu hins vegar á því prófi í þetta sinn.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 6. mars 2024.