Í dag er lengsta farþegaflug heims milli Singapore og New York, rúmlega 15.000 km og tekur um 18 klukkustundir. Ætla mætti að tækninýjungar og sparneytnari þotuhreyflar gæfu okkur tækifæri á að fljúga þessa vegalengd, en svo er ekki. Raunar hafa flugfélög gert tilraunir með ferðir af svipaðri lengd frá því um aldamótin síðustu en alltaf gefast þau upp.

Þegar flugið verður svona langt gerir burðargeta flugvélarinnar það að verkum að fórna þarf farþegum svo bera megi eldsneyti sem eingöngu er hugsað til að flytja hitt eldsneytið sem ferðalagið með farþegana krefst. Svo í stað 300 farþega sem hægt er að fljúga með venjulega er eingöngu flogið með 100 og verðmiðinn eftir því. Flugfarþegar eru því einfaldlega betur settir í samkeppni flugfélaga á styttri og meðallöngum flugleggjum þar sem hægt er að velja á milli aragrúa flugtíma, fargjalda og fríðinda um borð. Hagkvæmara fyrir flugfélögin og fjölbreyttari kostir fyrir farþegana.

Rekstur ríkisins er um margt eins og þetta langferðaflug. Þjónusta ríkisins spannar svið sem líkja má við ólíka áfangastaði heimshorna á milli. Umfang hins opinbera hér á landi er með því mesta í heiminum, útgjöld hafa hækkað um 33% á síðastliðnum fimm árum og nefndum, ráðum og stjórnum fjölgað um 10% á síðastliðnum þremur. Þó ríkið geti boðið upp á þetta eina ríkisflug sem spannar alla vegalengdina þýðir ekki að það sé hagkvæmt eða gott. Flugmiðinn okkar, skatturinn, hefur t.d. hækkað um jafngildi 800 þúsund króna á hvern íbúa á síðastliðnum 10 árum. Hið opinbera þarf stöðugt meira pláss einfaldlega til að fljúga með sjálft sig frekar en að hugsa um það mestu máli skiptir, hvað er best fyrir okkur farþegana sem greiðum fyrir flugið.

Höfundur er sérfræðingur hjá Viðskiptaráði.