Tekjublöðin eru komin út eitt árið enn og á þeim er margt að græða, bæði fyrir lesendur sem hafa áhuga á tekjum náungans og auðvitað fjölmiðla, sem gera sér margvíslegan mat úr.

Fjölmiðlarýnir rak augu í frétt sem flutt var eða endurómuð á nokkrum miðlum og laut að tekjum sveitarstjórnarmanna. Það er sjálfsagt að fjallað sé um tekjur æðstu opinberra starfsmanna á þann hátt, enda eiga þær að liggja fyrir með öðrum hætti en aðeins í tekjublöðunum, sem byggja á álagningarskrám. Útgangspunktur þessara frétta var hins vegar sá að hinir eða þessir bæjarstjórar og borgarstjóri hefðu há laun og raunar hærri laun en borgarstjórar heimsborga eins og Lundúna eða New York. En er það nú alveg rétt athugað?

Fyrst ber að líta til þess að sumar fréttirnar stönguðust lítillega á innbyrðis, t.d. um hvort bæjarstjórar þægju einnig bæjarfulltrúalaun (þeir hafa sumir afsalað sér þeim), en misjafnt sé hvort tillit var tekið til þess í heildarupphæðinni.

Þá er vafamál hvort alls staðar hafi verið horft til réttra launa borgarstjóranna erlendu, því að laun borgarstjóra Lundúna voru þar a.m.k. eitthvað á reiki, en hann hefur nýverið fengið hressilega launahækkun eftir að launin höfðu staðið í stað árum saman.

Þá er ekki heldur tekið tillit til þess að borgarstjórar heimsborganna njóta margvíslegra fríðinda annarra, þeir hafa glæsilega embættisbústaði, jafnvel sumarsetur, fá nær alla framfærslu greidda, bíl og einkabílstjóra og þar fram eftir götum. Svo ekki er það nú allt samanburðarhæft. Fyrir nú utan hitt að laun borgarstjóra eru afar misjöfn bæði milli landa og innan landa.

Sums staðar er nánast litið á þau sem þegnskyldu (og launin stökkpallur í æðri embætti), annars staðar er tillit tekið til stjórnunarstarfa hjá fyrirtækjum af sambærilegri stærðargráðu. Og svo eru hefðirnar ólíkar, borgarstjóri San Francisco er þannig með langhæstu borgarstjóralaunin í Bandaríkjunum en er hún þó ekki nema áttunda stærsta borgin þar í landi.

En ef til vill er nærtækast að líta til þessara launakjara á annan hátt. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er þannig sagður hafa 1,9 milljónir króna í laun á mánuði. Það eru að sönnu engin lúsarlaun, en þegar haft er í huga að hann stýrir stærsta fyrirtæki landsins er það engin ofrausn. Enn síður ef litið er til þeirra kjara sem aðrir stjórnendur stórfyrirtækja í landinu njóta.

Viðmiðunin hlýtur þó ekki síður að vera almenn launakjör á hverjum stað. Ef litið er til miðgilda launa í New York borg eða Lundúna, þá eru þau ekkert slor, með þeim hæstu í heimi, enda fáir staðir þar sem saman eru komnir fleiri skrilljónerar. Þó er það nú svo að miðgildi heildarlauna á Íslandi er töluvert hærra. Þarf ekki að taka það með í reikninginn?

Jú, gæti einhver sagt, en framfærslukostnaðurinn er hærri hér, sem er alveg satt. En húsnæðisliðurinn ekki og svo framvegis. Málið er nefnilega það, að þetta er á engan veg samanburðarhæft og kjánalegt af fjölmiðlum að láta eins og svo sé.

Telji menn að borgarstjórinn í Reykjavík sé of vel haldinn af sínum launum, þá verða þeir að miða við Reykjavík, ekki New York eða Lundúnir.

* * *

Á vef The Guardian birtist á laugardag háðsádeila á bollaleggingar Donalds Trump Bandaríkjaforseta um kaup á Grænlandi. Þar voru honum lögð ýmis orð í munn og Twitter, en útgangspunkturinn sá að hann segðist vera búinn að kaupa Grænland fyrir 15 milljarða Bandaríkjadala með Kanye West og Massachusetts-ríki í kaupbæti! Um þetta efuðust svo hinir og þessir á alþjóðavettvangi og forsætisráðherra Dana víst búinn að flytja „Guð blessi Danmörku“ ávarpið. Og sá skemmtilegi vinkill að Trump teldi Reykjavík tilheyra Grænlandi. – Allt frekar fyndið og vel þess virði að lesa, allt skáldað.

Hið fáránlegasta var þó það að Jón Bjarki Magnússon, blaðamaður Stundarinnar, trúði þessu eins og nýju neti og skrifaði heila frétt um, sem síðan birtist sem hver önnur frétt á vef Stundarinnar! Sú frétt hvarf til allrar hamingju nokkru síðar (alnetið gleymir engu svo Google-leit að „Trump telur Reykjavík fylgja“ skilar afriti af upphaflegu fréttinni). Það er eiginlega óskiljanlegt að Jón Bjarki hafi ekki áttað sig á því hvers kyns var, kannski hann hafi viljað trúa því? Sem gerði það auðvitað enn verra fyrir hann og miðilinn.

En að „fréttin“ hafi verið birt sisona og enginn áttað sig á bullinu fyrr en eftir dúk og disk, og hún svo látin hverfa umyrðalaust, það bendir til þess að grundvallarvinnubrögðum sé verulega ábótavant.

* * *

Það var athyglisverð frétt um „flugatvik“ í grennd við Reykjavíkurflugvöll á síðu 2 í Mogganum í gær. Þar lá við árekstri tveggja flugvéla, en aðeins rúmir 30 metrar voru á milli þeirra þegar minnst var. Fréttin er raunar síðan í mars í fyrra, en hún er skrifuð eftir að nýverið út kom skýrsla Rannsóknarnefndar samgönguslysa um atvikið.

Þetta er allt fréttnæmt enn, þó nokkuð sé um liðið, en vandinn er sá að fréttin styðst alltof nákvæmlega við skýrsluna, er skrifuð beint upp úr henni og talsvert í hana vitnað með beinum hætti.

Sem heimild er skýrslan auðvitað bráðnauðsynleg, en það er markmiðið með fréttaskrifum að greina nákvæmlega frá því sem gerðist og máli skiptir, þannig að lesandinn skilji. Í skýrslunni er hins vegar verið að skrifa fyrir fólk, sem hefur þekkingu á flugi og þá sér í lagi flugi í nágrenni Reykjavíkur, og fréttin er mjög á sömu leið. Vita allir lesendur hvað „snertilendingar“ eru eða „leið 3“ í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli?

Nei, blaðamaður á ekki að gera ráð fyrir slíkri þekkingu hjá lesandanum. Fréttin var lesendum þess vegna ekki nema að hálfu gagni, ef það. Hvað þá að útskýrt væri hvort fleirum hefði stafað hætta af þessum yfirvofandi árekstri eða annað sem ætla má að ætti beinna erindi við lesendur.

* * *

Þrátt fyrir slétt og fellt yfirborðið á íslensku samfélagi kraumar og vellur bræðin víða undir og ekki þarf mikið til að upp úr sjóði. Þetta merkir fjölmiðlarýnir m.a. af fréttum Morgunblaðsins um hagræðingaraðgerðir Íslandspóst, þar sem því var slegið upp í fyrirsögn að frímerkjasafnarar væru ósáttir við breytta frímerkjasölu. Getur byltingin verið langt undan?