„Hérlend fyrirtæki og stofnanir nýttu um helming auglýsingafjár til birtingar í erlendum miðlum árið 2022. Greiðslur til erlendra miðla hafa meira en tvöfaldast á einum áratug.“ Svona hófst frétt Ríkisútvarpsins mánudaginn 5. febrúar en í henni er fjallað um upplýsingar, sem koma fram á vef Hagstofunnar. Í fréttinni kemur fram að heildarfjárhæð auglýsingakaupa árið 2022 hafi numið 22 milljörðum króna og af því hafi erlend fyrirtæki fengið 11,5 milljarða.

Það merkilega við þessa frétt er að tæpri viku áður, eða miðvikudaginn 31. janúar, birti Viðskiptablaðið frétt á forsíðu undir fyrirsögninni „Stórauka auglýsingatekjur“. Í fréttinni er fjallað um rekstraráætlun Ríkisútvarpsins fyrir þetta ár, sem gerir ráð fyrir 17,4% aukningu auglýsingatekna frá síðasta ári.

Fréttin, sem byggir á fundargerð stjórnar RÚV frá 29. nóvember, var tekin upp af bæði Morgunblaðinu og Vísi. Af einhverjum ástæðum sá fréttastofa RÚV hins vegar ekki ástæðu til að fjalla um þessi auknu umsvif ríkismiðilsins á samkeppnismarkaði. Það er reyndar erfitt að vita nákvæmlega  hvort RÚV fjallar um tiltekin mál eða ekki, þar sem ríkismiðillinn heldur úti tveimur útvarpsstöðvum, tveimur sjónvarpsstöðvum, netfréttastofu og ýmsum hlaðvörpum. Allt í samkeppni við einkamiðla.

Þessi frétt, sem Viðskiptablaðið birti, er hins vegar merkileg fyrir þær sækir að um áramótin síðustu var gerður nýr þjónustusamningur milli Ríkisútvarpsins og menningar- og viðskiptaráðherra til næstu fjögurra ára. Í viðauka við þjónustusamninginn er að finna yfirlýsingu Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra og Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, vegna umsvifa RÚV á auglýsingamarkaði.

Þar segir: „Unnið verður að því á gildistíma samningsins að minnka umsvif Ríkisútvarpsins á samkeppnismarkaði, t.d. með frekari takmörkunum á birtingu viðskiptaboða og/eða með því́ að breyta eðli og umfangi auglýsingasölu.“

Miðað við rekstraráætlun Ríkisútvarpsins er alveg ljóst að markmið um að minnka umsvif ríkismiðilsins á samkeppnismarkaði næst ekki.

Það á sem sagt að bæta ríkismiðlinum upp „tekjutap“ vegna minni auglýsingasölu en á sama tíma liggur fyrir að RÚV er að auka auglýsingatekjur sínar um 17,4% á milli ára.

Blekið náði sem sagt ekki að þorna áður en samningurinn var brotinn. Þetta eru reyndar öfugmæli því drög að þjónustusamningnum lágu fyrir þegar rekstraráætlunin var kynnt. Í fundargerð stjórnar RÚV frá 13. desember er sem dæmi fjallað um drög að samningnum. Í fundargerðinni segir: „Útvarpsstjóri fór yfir að drög að nýjum þjónustusamningi hefðu verið kynnt stjórn á fundi í september sl. og í kjölfarið hafi verið skiptuð undirnefnd stjórnar sem fór nánar yfir drögin.“

Í fundargerðinni segir ennfremur: „Einnig er til skoðunar að rita undir yfirlýsingu vegna vinnu sem verið hefur í gangi og snýr að starfsemi RÚV á samkeppnismarkaði, þ.e. við sölu auglýsinga. Yfirlýsingin felur í sér að áfram verði unnið að þeirri skoðun á samningstímanum og þá með þeim skýra fyrirvara að áætlað tekjutap RÚV vegna þessa verði bætt svo RÚV geti sinnt verkefnum sínum samkvæmt lögum og þjónustusamningi.“

Þessi lesning er með miklum ólíkindum. Það á sem sagt að bæta ríkismiðlinum upp „tekjutap“ vegna minni auglýsingasölu en á sama tíma liggur fyrir að RÚV er að auka auglýsingatekjur sínar um 17,4% á milli ára. Það stendur ekki steinn yfir steini í Efstaleiti.

Svo við setjum þessar tölur í eitthvað samhengi þá þýðir 17,4% aukning auglýsingasölu það að tekjur af sölu auglýsinga fara yfir 3 milljarða króna á þessu ári.

Þessu til viðbótar hækkar útvarpsgjaldið um 3,5% á árinu, sem þýðir að útvarpsgjaldið hefur hækkað um 11% fá árinu 2022. Samkvæmt fjárlögum 2024 er ríkisframlagið 6,1 milljarður. Tekjur RÚV af auglýsingum og útvarpsgjaldi verða því ríflega 9 milljarðar á árinu 2024 og hækka um ríflega 800 milljónir króna frá fyrra ári.

Ef einhvern tímann þarf að rífa í handbremsuna þá er það núna, nema auðvitað að framtíðarsýnin sé sú að á Íslandi verði rekinn einn fjölmiðill, ríkismiðill allra Íslendinga.

Þrátt fyrir þetta kemur fram í fundargerð stjórnar RÚV frá 13. desember að rekstraráætlun fyrir árið 2024 geri ráð fyrir 5 milljóna króna hagnaði. Þetta er ekki innsláttarvilla, áætlunin gerir ráð fyrir fimm milljóna króna hagnaði. Það er augljóslega eitthvað mikið að í Efstaleiti.

Það er ágætt að halda því til haga að fréttir og efni ríkisútvarpsins eru ekki ókeypis í neinum skilningi þessi orðs því útvarpsgjaldið er ekkert annað skylduáskrift. Á þessu ári greiðir hver einasti Íslendingur 69 ára og yngri 20.900 krónur í útvarpsgjald, svo lengi sem hann hefur 2,3 milljónir króna í árstekjur.

Á meðan ríkismiðillinn heldur áfram að ryksuga upp auglýsingamarkaðinn þvert á markmið nýs þjónustusamning heyrist hvorki hóst né stuna frá ráðherra menningarmála. Ef einhvern tímann þarf að rífa í handbremsuna þá er það núna, nema auðvitað að framtíðarsýnin sé sú að á Íslandi verði rekinn einn fjölmiðill, ríkismiðill allra Íslendinga.