Hrafnarnir sjá á Alþingisvefnum að tíu þingmenn hafa að undanförnu verið að spóka sig í París á kostnað skattgreiðenda. Í fyrstu héldu hrafnarnir að um árlega góugleði þingmanna væri að ræða en svo reyndist ekki vera. Hér var á ferðinni sérstök fræðsluferð fjárlaganefndar.

Eins og lesa má um á vef Alþingis þá heimsóttu þingmennirnir höfuðstöðvar Efnahags- og framfarastofnunarinnar og ræddu málefni sem auðveldlega hefði verið hægt að kynna sér með lestri gagna sem eru öllum aðgengileg á Netinu og skipulag fundar sem auðveldlega hefði verið hægt að afgreiða með tölvupóstum.

Hrafnarnir telja ágætt að þingmenn sæki sér fræðslu en þeir ættu að gera það á eigin kostnað. Og þingmenn sem bera ábyrgð á fjárlögum sem eru með 120 milljarða halla ættu að gera eitthvað annað en fara í froðuheimsóknir erlendis á kostnað skattgreiðenda.

Voru heppin með veður

Fyrir hönd fjárlaganefndar tóku þátt í ferðinni Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir formaður, Haraldur Benediktsson, Eyjólfur Ármannsson, Stefán Vagn Stefánsson, Þórarinn Ingi Pétursson, Vilhjálmur Árnason, Bryndís Haraldsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Helga Vala Helgadóttir og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.

Heimsóknin stóð yfir dagana 20.-22. febrúar. París skartaði sínu fegursta meðan á dvölinni stóð og náði hitastigið meðal annars 17 gráðum á öðrum degi heimsóknarinnar. Hins vegar var skýjað síðasta daginn og það rigndi lítillega.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.