Matsfyrirtækið Fitch staðfesti lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins á dögunum.

Einkunnin er A og matsfyrirtækið segir horfurnar stöðugar.

Sérstaklega er tekið fram í rökstuðningi Fitch að landsframleiðsla og stjórnarhættir á Íslandi séu sambærileg við lönd sem njóta hærri lánshæfiseinkunnar en ríkið gerir. Það er vissulega rétt og færa má sannfærandi rök fyrir þeirri skoðun að íslenska ríkið ætti að njóta betra lánstrausts erlendis en raun ber vitni.

Fitch, rétt eins og matsfyrirtækið S&P, segir að það sem standi lánshæfiseinkunn ríkisins fyrir þrifum sé fyrst og fremst einhæfni útflutningsgreinanna. Þær eru of fáar. Uppgangur ferðaþjónustunnar hefur vissulega skotið fleiri stoðum undir verðmætasköpun hagkerfisins en sérfræðingar matsfyrirtækjanna taka með í reikninginn að þar er ekki á vísan að róa. Ferðamannastraumurinn getur breyst skyndilega vegna hamfara eða annarra ófyrirsjáanlegra þátta. Íslendingar hafa verið rækilega minntir á þessa staðreynd í vetur.

Það vakti sérstaka athygli í rökstuðningi Fitch að fiskeldi og líftækni eru sérstaklega nefnd í samhengi við að skjóta fleiri stoðum undir verðmætasköpunina. Segja sérfræðingar Fitch að Ísland hafi alla burði til að vera leiðandi á heimsvísu í fiskeldi. Reyndar vakti þetta enga sérstaka athygli starfsmanna fjármálaráðuneytisins sem minntust ekki einu orði á þetta í fréttatilkynningu sem var send á fjölmiðla vegna málsins. Hvað um það.

Það er vissulega rétt að sóknartækifærin eru mikil í fiskeldi og þá ekki síst í landeldinu þar sem Ísland hefur mikið náttúrulegt forskot vegna grænnar og hreinnar orku. Í nýlegri skýrslu Boston Consulting sem unnin var fyrir matvælaráðuneytið kemur fram að innan fárra ára verði söluverðmæti eldisiðnaðarins um 250 milljarðar eða sem nemur um sex prósentum af landsframleiðslu.

Forsenda slíks vaxtar er auðvitað vaxandi framboð á grænni orku eða rafmagni eins og hún var kölluð á árum áður. Það er ekki til staðar í dag enda ríkir hér orkuskortur vegna algjörrar stöðnunar í orkuöflun undanfarinn áratug.

Í grein sem Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, birti í þessu blaði í ágúst er grafalvarlegu ástandi í raforkuframleiðslu lýst og varað við yfirvofandi orkuskorti sökum tregðu til að liðka fyrir framkvæmdum við nýjar virkjanir. Í greininni segir Hörður:

Það verður einfaldlega ekki hægt að anna afhendingu á forgangsorku á næstu árum án frekari orkuöflunar. Það þýðir að aðilar munu ekki fá raforku til starfsemi sem þegar hefur verið byggð á Íslandi, hvað þá að hægt verði að bæta þar við.

Með öðrum orðum þá er sú stefna sem hefur verið rekin í orkumálum smám saman að grafa undan lífskjörum í landinu til frambúðar. Án frekari orkuöflunar verða tækifæri í landeldi og öðrum geirum ekki nýtt. Þar með fara tækifæri til gjaldeyrisöflunar til að treysta lífskjör íbúa landsins í súginn.

Sá undarlegi málflutningur heyrist stundum að Íslendingar framleiði nú þegar nægilega mikla raforku og eigi að láta staðar numið. Þessi barnalega skoðun felur í sér ákall um að færa lífskjör á landinu áratugi aftur í tímann.

Á þessum vettvangi hefur verið bent á að raforka er meðal stærstu útflutningsgreina Íslands og ein meginstoða efnahagslífs hér á landi. Útflutningur raforkunnar er í formi áls, kísils og járnblendis og skapar Íslandi gjaldeyristekjur. Þessi sami gjaldeyrir gerir okkur kleift að kaupa innfluttar vörur. Til dæmis rafknúin faratæki af ýmsu tagi svo dæmi séu tekin. Ef Ísland tekur þá ákvörðun að láta af raforkusölu til orkusækins iðnaðar eru engar líkur á því að nægur gjaldeyrir verði til skiptanna til að flytja inn öll rafknúnu farartækin sem eiga að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Það mætti í raun líkja þessu við að Ísland léti af innflutningi á matvælum, drægi úr útflutningi á sjávarafurðum og neytti þeirra innanlands í auknum mæli. Minni útflutningstekjur sætu eftir á Íslandi, sem þýddi að minna væri til skiptanna til að fjármagna innflutning, sem leiðir óumflýjanlega af sér skert lífsgæði á Íslandi.

Eins og bent er á í mati Fitch þá eru tækifærin fjölmörg þegar kemur að því að styrkja stoðir íslensks efnahags og auka verðmætasköpun og þar með undirstöður lífskjara hér á landi. En lykillinn að þeim tækifærum er aukin orkuöflun.

Þessi leiðari Viðskiptablaðsins birtist í blaðinu sem kom út 6. mars 2024.