Það rifjaðist nýlega upp fyrir Tý að í ágúst 2016 fjallaði hann um frétt sem hafði birst á mbl.is um kanadíska fjölskyldu sem hafði fyrir tilviljun rekist á forsætisráðherra landsins, Justin Trudeau, á göngu í þjóðgarði þar í landi. Það hefur eflaust verið gaman fyrir fjölskylduna en það var ekki það sem Týr hafði við fréttina að athuga. Í fréttinni var Trudeau sagður „holdgervingur nýrrar kynslóðar stjórnmálamanna“, að hann væri stoltur femínisti og umhverfissinni, vildi heimila notkun marijúana í lækningaskyni og hækka skatta á hina ríku. Allt þetta átti þá væntanlega að vera einhvers konar mælikvarði á hinn réttsýna nútíma stjórnmálamann, ólíkt öllum hinum. Til að heimfæra mælikvarðann á Ísland þá væri Trudeau eflaust metinn svo góður að hann væri fastagestur í spjallþætti Gísla Marteins.

* * *

Týr benti á að það kynni ekki góðri lukku að stýra þegar fjölmiðlar mála upp glansmynd af stjórnmálamönnum og það ætti eftir að reyna á hversu góður Trudeau væri í raun og veru.

* * *

Nú, rúmlega fimm árum síðar, sjáum við því miður allt aðra mynd af Trudeau. Í kjölfar friðsamlegra mótmæla trukkabílstjóra gegn skyldubólusetningu hefur Trudeau nú virkjað sérstakt neyðarákvæði laga – í fyrsta sinn í sögu landsins - til að beita ríkisvaldinu gegn þeim sem taka þátt í mótmælunum. Með þeim má handtaka alla þá sem taka þátt í mótmælunum, frysta eignir þeirra og tryggingarfélögum er óheimilt að tryggja viðkomandi. Ríkisstjórn Trudeau er að beita valdi með allt öðrum hætti en íbúar Kanada hafa fengið að kynnast. Það fer illa saman að fella tár í hugljúfum ræðum um jafnréttismál en haga sér svo eins og sturlaður einræðisherra þegar fólk sýnir borgaralega óhlýðni. Mótmæli bílstjóranna hafa vissulega valdið truflunum og óþægindum, eins og mótmæli gera oftast, en það er þó það eina. Þau eru friðsælli en mótmælin sem áttu sér stað í Bandaríkjunum í fyrra og friðsælli en hin svonefnda búsáhaldarbylting sem átti sér stað hér á landi.

* * *

Týr bíður enn eftir því að íslenskir stjórnmálamenn láti sig málið varða. Það er til lítils að slá um sig með fordæmingu á ofbeldi í fjarlægum löndum þegar löggan er að berja fólk í nágrannaríkjum okkar.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .