Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika hefur beðist lausnar úr embætti.

Hyggst hann reyna fyrir sér á öðrum vettvangi úti í hinum stóra heimi. Margir velta fyrir sér hvað verði nú um loftlagseftirlit Seðlabankans en hrafnarnir hafa ekki miklar áhyggjur af því. Þeir hafa hins vegar áhyggjur af hvimleiðu tali blaðamanna og sérfræðinga um dúfur og hauka þegar kemur að ákvörðunum við stjórn peningamálastefnunnar. Sem kunnugt er þá var Gunnar sá eini í peningastefnunefndinni sem hefur viljað lækka vexti að undanförnu. Sökum þessa hefur hann verið kallaður vaxtadúfa meðal vaxtahauka að enskri fyrirmynd.

© Gígja Einarsdóttir (Gígja Einars)

Það er óþjóðlegt og þar af leiðandi rangt. Mun eðlilegra væri að tala um vaxtarjúpur og vaxtafálka í þessu samhengi. Þannig mætti segja að vaxta-rjúpan Gunnar væri að kveðja Seðlabankann á meðan vaxtafálkarnir í peningastefnunefndinni sýna á sér ekkert fararsnið.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 10. apríl 2024.