Menn geta haft sínar skoðanir á þeirri trúarsetningu að íslenskt samfélag standi á hvirfilpunkti í efnahags- og félagslegum skilningi eins og fylgjendur Sósíalistaflokks Gunnars Smára Egilssonar boða flestar stundir sólarhrings á Samtöðinni.

Hverju sem því líður þá er Gunnar Smári glöggur fjölmiðlarýnir. Sem kunnugt er þá höfðu Dagur B. Eggertsson og Einar Þorsteinsson margboðuð stólaskipti í borgarstjórn Reykjavíkur í síðustu viku. Af þessu tilefni var Dagur fyrirferðarmikill í mörgum fjölmiðlum þar sem hann ræddi um arfleifð sína á borgarstjórastóli.

Gunnar Smári bendir á samfélagsmiðli sínum að Dagur sé alls ekki að kveðja borgarmálin að svo komnu máli. Hann bendir á að Dagur sé að færa sig úr hlutverki borgarstjóra yfir í formennsku borgarráðs en þeirri stöðu gegndi hann áður en hann varð borgarstjóri árið 2014. Þeirri stöðu hafi hann haldið þrátt fyrir að hafa tapað þrennum kosningum síðan þá.

Gunnar skrifar:

Margboðuð stólaskipti þeirra Dags og Einars Þorsteinssonar eru ekki frétt. Þetta hefur verið vitað í rúmt eitt og hálft ár. Þetta breytir líka engu fyrir borgarbúa, engu í ráðhúsinu og í raun sáralitlu fyrir þessa tvo menn. Þeir munu áfram verða samstarfsmenn í að stýra borginni, aðeins skiptast á skrifstofum og dagskrá. Samt var Dagur í Vikulokunum í morgun og hann var í Vikunni með Gísla Marteini í gær, eftir að hafa verið aðalgestur Silfursins að ræða sama mál. Og svo er hann búinn að vera oft í fréttum út af þessum stólaskiptum undanfarna daga og vikur, fréttum sem eru í raun engar fréttir heldur bara einhverjar blúndur utan um eitthvað sem ekkert er.

Upphafning Ríkisútvarpsins á Degi í tengslum við að hann sé að skipta um skrifstofu afhjúpar að stofnunina skortir faglega forystu, hún verður áfram stjórnlaus út frá tilfinningu fjölmiðlafólks sem veit ekkert skemmtilegra en að hampa valdafólki, líklega í von um að tilheyra þeim félagsskap einhverju sinni.

Ég ræði við fólk um samfélagið nánast frá morgni til kvölds alla daga, margir tugir fólks á hverjum degi. Enginn hefur nefnt þessi stólaskipti við mig, ekki nokkur sála. Ég hef prufað að bjóða upp á þetta sem umræðuefni en fólk svarað kurteislega nei, takk. Ef gangar og salir Ríkisútvarpsins eru fullir af fólki sem finnst þetta spennandi mál ætti yfirstjórnin að endurmanna skútuna að stóru leyti. Þetta fólk er ekki í nokkru sambandi við almenning.”

Þetta eru áhugaverðar vangaveltur hjá Gunnari Smára. Ekki síst hvað skort á faglegri forystu á Ríkisútvarpinu varðar. Það að meira og minna sama spjallið við Dag hafi verið birt í fjölda dagskrárliða er svona eins og dagblað kæmi út þar sem sami maðurinn væri til umfjöllunar á fréttasíðum, í umfjöllun um íþróttir og menningu og klykkti svo út með einni gómsætri uppskrift að bananabrauði.

***

En Dagur er ekki bara búinn að vera upptekinn í spjalli uppi í Efstaleiti. Hann hefur einnig verið í viðtölum í öðrum fjölmiðlum. Það mörgum að ótrúlegt hlýtur að teljast að hann hafi getað sótt allar þær kveðjuveislur sem haldnar hafa verið honum til heiðurs að undanförnu og sagt hefur verið frá í fjölmiðlum.

Heimildin birti drottningarviðtal við Dag fyrir nokkrum vikum og þá heimsótti hann hlaðvarp Ólafs Arnarsonar sem kennt er við Eyjuna, fylgihnött vefmiðilsins DV.

***

Íbáðum þessum viðtölum fegrar Dagur fjárhagsstöðu borgarinnar án þess að spyrlar geri við það sérstakar athugasemdir. Af þeim viðtölum mátti skilja af Degi að allt tal um alvarlega fjárhagsstöðu borgarinnar væri pólitískur áróður andstæðinga og svo sækir hann í smiðju þeirra Megasar og Grettis Ásmundssonar og fullyrðir að staðan sé mun verri í nágrannasveitarfélögunum.

Í samtalinu við Ólaf Arnarson segir Dagur: „Þetta var ekki einfalt en ef þú berð saman kennitölur Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaganna þá kemur í ljós að við skuldum minna miðað við tekjur og við skuldum raunar líka minna en ríkissjóður miðað við tekjur.“

Það þarf ekki annað en að fara inn á ágæta heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga til að sjá að þessi fullyrðing á alls ekki við nein rök að styðjast sé litið til undanfarinna ára. Þvert á móti. Í þessum samanburði eru A og B-hlutinn teknir saman enda verður það að teljast eðlilegt miðað við hversu mikið Reykjavík reiðir sig á arðgreiðslur frá Orkuveitunni og matsbreytingar Félagsbústaða til að fegra bókhaldið.

Þá er samanburður Dags á stöðu borgarinnar annars vegar og ríkisins hins vegar furðulegur. En látum nægja í því samhengi að stærsti hluti skulda ríkisins er í krónum – gjaldmiðli sem það
gefur út sjálft.

***

En vilji maður glöggva sig á stöðu Reykjavíkurborgar þarf ekki annað en að lesa yfir skýrslu fjármála- og áhættustýringarsviðs borgarinnar með níu mánaða uppgjöri borgarinnar í fyrra. Sérfræðingarnir sem skrifa skýrsluna eru lítið að velta fyrir sér þeim kennitölum sem fráfarandi borgarstjóri heldur á lofti. Því mun meira er fjallað um veltufé frá rekstri. Það segir til um hversu mikið svigrúm fjárhagurinn veitir til annars en að borga af skuldum og fjárfestingum. Fram kemur í skýrslunni að miklar greiðsluskuldbindingar og uppsöfnuð fjárfestingarþörf kalli á mikið veltufé frá rekstri. Það er ekki staðan hvað svo sem menn kunna að segja og staðreynd málsins er sú að þegar búið er að taka tillit til afborgana lána og lífeyrisskuldbindinga þá standa veltufé frá rekstri og fjárfestingatekjur ekki undir fjárfestingum nema að takmörkuðum hluta.

Þó að veltufé frá rekstri hafi aukist á þriðja fjórðungi þá orsakaðist það vegna arðgreiðslna frá Orkuveitu Reykjavíkur annars vegar og Faxaflóahöfnum hins vegar. Slíkar arðgreiðslur eru eðli málsins samkvæmt ekki reglulegur liður í bókhaldi borgarinnar.

***

Fleira sem fjölmiðlum ætti að þykja forvitnilegt má finna í skýrslunni. Þar kemur fram að matsbreytingar á virði Félagsbústaða hafi skilað miklum hagnaði á pappír en eðli málsins samkvæmt stendur ekki til að innleysa þann hagnað með sölu eigna. Þrátt fyrir þessar miklu matsbreytingar lækkaði rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og skatta um 4,3% milli ára. Tekjur hækkuðu um tæp 13% á meðan rekstrargjöld hækkuðu um fjórðung. Tekjur félagsins fylgja vísitölu neysluverðs, sem þýðir að hækkun fasteignaverðs og byggingarkostnaðar umfram verðlag hefur neikvæð áhrif á grunnrekstur félagsins vegna aukins kostnaðar við rekstur og viðhald fasteigna og öflun nýrra eigna. Enda mátti lesa í endurskoðaðri fjárhagsáætlun Félagsbústaða fyrir árið 2023 að veltufé frá rekstri standi hreinlega ekki undir afborgunum langtímalána.

***

Fleira mætti tína til. En kjarni málsins er sá að þeir sem ætla að fjalla um fjármál Reykjavíkurborgar með sanngjörnum hætti eiga erfitt með að komast að annarri niðurstöðu en að borgin sé í fjárhagskröggum.

Endurbættar fjárhagsáætlanir sem sýna undraverðan viðsnúning á stuttum tíma breyta engu þar um. Þær munu ekki standast frekar en fyrri áætlanir. Verðbólgan bitnar herfilega á skuldsettum og Reykjavík og fyrirtæki borgarinnar eru afar skuldsett. Miklar líkur verða teljast á að verðbólga á árinu verði mun hærri en áætlanir borgarinnar gera ráð fyrir og rekstrarniðurstaðan fari eftir því. Það er arfleifð Dags í fjármálum borgarinnar og hún breytist ekki þó að öðru sé haldið fram. Hvorki tölurnar né skuldabréfamarkaðurinn lýgur í þeim efnum en sem kunnugt er hefur borgin ekki getað staðið við áætlanir sínar um stækkanir skuldabréfaflokka nema á afarkjörum.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 24. janúar 2024.