Það uppbyggingartímabil sem nú fer í hönd í kjölfar heimsfaraldurs felur í sér tækifæri fyrir Norðurlöndin til að byggja hagkerfin upp á nýtt með grænni og sjálfbærari hætti en áður. Ef við aðhöfumst ekki missum við af mikilvægu tækifæri til að styrkja fjármálakerfið, vernda umhverfið og standa vörð um hagsmuni komandi kynslóða.

Kórónuveiran hefur á liðnum mánuðum valdið miklum efnahagslegum skaða, leitt til aukins atvinnuleysis og verulegs samdráttar í hagkerfinu. Það er því mikilvægt að norrænum þjóðum takist, með samstarfi einkaaðila og opinberra aðila, að skapa ný störf og auka hagvöxt og sýna þannig með leiðandi hætti fram á að sjálfbærni og hagvöxtur fara vel saman. Um leið skapast öflugri grundvöllur fyrir því að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Grænn efnahagsbati felur í sér góða viðskiptahætti

Mauna Loa-mælingastöðin í Hawaii skráði 1. júní sl. nýtt met koltvíoxíðs í andrúmsloftinu, 418.32 ppm. Áður en COVID-19 skall á var ljóst að bæði einkageiranum og hinu opinbera hafði mistekist að halda loftslagsbreytingum í skefjum. Ríkisstjórnir heims keppast nú við að örva hagkerfi sín sem aldrei fyrr. Að því tilefni minnti Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna (SÞ), á að nú væri nauðsynlegt fyrir þjóðir heims að innleiða sjálfbærar efnahagsaðgerðir og móta þannig hagkerfi 21. aldar svo það verði hreint, grænt, heilsusamlegt, öruggt og þrautseigara en það hefur verið hingað til 1 .

Verkefni okkar sem fjármálastofnana, eignarstýringaraðila og fjármagnseigenda er að tryggja framtíðarávöxtun. Við tökum undir með aðalframkvæmdastjóranum og teljum að leiðin sem hann lýsir sé fjárhagslega stöðug til lengri tíma. Tryggja verður sköpun nýrra starfa og hagvöxt með fjárfestingum í fyrirtækjum og atvinnugreinum sem stefna að lágmarkslosun gróðurhúsalofttegunda. Við erum sammála Guterres sem leggur áherslu á að þegar fjármagn skattgreiðenda er nýtt til að bjarga fyrirtækjum þarf það að fara saman við markmið um græn störf og sjálfbæran vöxt. Þetta eru góðir viðskiptahættir, þar sem rannsóknir sýna að fyrirtæki sem standa sig vel út frá viðmiðum um umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS), gefa betri ávöxtun og fela í sér minni fjárhagslega áhættu.

Skömmu áður en heimsfaraldurinn skall á kynnti Evrópusambandið (ESB) nýja reglugerð um samræmt flokkunarkerfi sem skilgreinir hvað telst til grænnar og sjálfbærrar starfsemi og kemur til innleiðingar í aðildarríkjum ESB og EFTA-ríkjunum á næstu árum. Þessu munu fylgja nýir staðlar fyrir græn skuldabréf auk annarra vottana til að auðvelda samanburð og efla traust fjárfesta á fjárfestingum sem sagðar eru vera grænar eða sjálfbærar. Með þessu verður hægt að stemma stigu við „grænþvotti" sem hefur tíðkast sumstaðar þar sem fjárfestingar eru misvísandi kallaðar grænar eða sjálfbærar. Stjórnendur fyrirtækja sem vinna að langtímastefnumótun þurfa að horfa til flokkunarkerfis ESB í uppbyggingarstarfinu sem fer í hönd eftir faraldurinn. Kerfið mun hafa víðtækar afleiðingar fyrir fjárfesta og verðbréfaútgefendur í ESB-löndum og á Norðurlöndum. 2 Það mun einfalda einkaaðilum og hinu opinbera að beina fjármagni til atvinnugreina sem stefna á minni losun gróðurhúsalofttegunda auk verkefna sem aðstoða aðrar greinar við að minnka kolefnisspor sín.

Norræn forysta

Reglugerðin gefur Norðurlöndunum tækifæri til að ná verulegum árangri í að gera hagkerfi sín grænni og sjálfbærari. Beita má beinum fjárstuðningi, hvetja til samstarfsverkefna opinbera aðila og einkaaðila, bjóða skattaívilnanir og styðja við starfsemi sem telst græn samkvæmt kerfinu. Ef okkur tekst vel til getum við á skömmum tíma innleitt stefnu og fjárfestingar sem að öllu óbreyttu hefðu þurft 50 ár í framkvæmd.

Það eru jákvæðar vísbendingar um grænan og sjálfbæran efnahagsbata á Norðurlöndunum sem nýleg könnun á innleiðingu heimsmarkmiðanna staðfestir auk þess sem íslensk stjórnvöld kynntu á dögunum nýja aðgerðaráætlun í loftslagsmálum. 3 Þó ber að hafa í huga að  það eru aðeins liðnir tveir mánuðir liðnir frá því að Alþjóðaorkumálastofnunin varaði við að útbreiðsla COVID-19 myndi ógna aðgerðum í loftslagsmálum til lengri tíma með því að draga úr fjárfestingu í hreinni orku og því er mikilvægara en aldrei fyrr að Norðurlöndin taki forystu á þessu sviði. 4

Nýjar og betri grunnstoðir og viðskipti með nýju sniði

Við þurfum að nota tækifærið til að endurfjármagna efnahagsbatann og vöxtinn í samræmi við Parísarsamkomulagið, Heimsmarkmið SÞ og flokkunarkerfi ESB. Sem forstjórar fjármálafyrirtækja og eignarstýringaraðilar erum við sannfærð um að við eigum ekki að hverfa aftur til fortíðar heldur skapa nýtt og betra sniðmát fyrir hagkerfið. Við þurfum að hugsa hlutina upp á nýtt og reisa nýjar og betri grunnstoðir. Við erum reiðubúin að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að gera fjármálakerfið grænna og styðja við sjálfbæran efnahagsbata til lengri tíma.

Odd Arild Grefstad er forstjóri Storebrand Group og Birna Einarsdóttir er bankastjóri Íslandsbanka. Þau eru bæði meðlimir í Samtökum norrænna forstjóra um sjálfbæra framtíð.

[1] https://www.un.org/en/un-coronavirus-communications-team/un-urgescountries-'build-back-better'


[2] https://ec.europa.eu/info/sites/info/ files/business_economy_euro/banking_ and_finance/documents/200309-sustainable-finance-teg-final-report-taxonomy_ en.pdf


[3] https://dashboards.sdgindex.org/rankings?utm_campaign=AktuellH%C3%A5llbarhet-Direkten_200702_Username&utm_medium=email&utm_source=Eloqua&elqTrackId=edb9952cc
70f4e599d1a68493f6e6b94&elq=2557d6c621fb4692a9de9e935bfb02f https://www.government.is
/news/ article/2020/06/23/New-Climate-ActionPlan-Iceland-will-fulfil-its-commitmentsand-more/

[4] https://www.theguardian.com/environment/2020/mar/12/coronovirusposes-threat-to-climate-action-sayswatchdog