Það er áberandi að þegar Framsóknarmenn voru í forsætisráðuneytinu voru keyptir bílar frá Véladeild Sambandsins. Eða alveg þangað til Sambandið fór á hausinn og amerískar drossíur fóru úr tísku. Sjálfstæðismennirnir voru hins vegar á þýskum bílum. Okkur hefur tekist að taka saman sögu bíla forsætisráðherra aftur til 1974.

Það er hins vegar dýpra á bílakosti Ólafs Jóhannessonar sem var í forsæti 1971-1974. En það má þó eiginlega slá því föstu að hann var keyptur hjá Sambandinu. Í Véladeildinni.

Oldsmobile Regency 1986-1987 og 1988-1991

Steingrímur lét forsætisráðuneytið kaupa nýjan Oldsmobile Regency árið 1986 en það virðist hafa verið eftir að ráðherrabíll hans lenti í árekstri með eiginkonu hans um borð.

Steingrímur tók bílinn með sér í utanríkisráðuneytið í 16 mánuði, þegar Þorsteinn Pálsson varð forsætisráðherra, en sneri til baka á Oldsmobile-num og endaði ráðherratíð sína með hann í þjónustu sinni.

Audi 200 1987-1988

Þorsteinn Pálsson lét kaupa bílinn, sem var blár að lit, þegar hann var fjármálaráðherra sumarið 1986 og tók hann með sér í forsætisráðuneytið ári seinna.

Audi hafði þá aldrei verið áður í þjónustu forsætisráðuneytsins. Audi 200 var fínni gerð af Audi 100, var með stærri vél og betur búinn.

En Audi var ekki lengi í Paradís. Þorsteinn sagði af sér embætti haustið 1988 og Audi-inn fór til Jóns Baldvins í utanríkisráðuneytið.

Jeep Cherokee Limited og Oldsmobile 1988 - 1991

Eins og áður sagði notaði Steingrímur Hermannsson Oldsmobile bifreiðina áfram. Hann ákvað hins vegar 1. apríl 1990 að hefja notkun á eigin bíl af gerðinni Cherokee Limited 1987 og fékk greiddan bensínkostnað, háan viðhaldsreikning og afskriftir af bílnum. Notaði Steingrímur jeppann þá 11 mánuði sem hann átti eftir í sæti forsætisráðherra. Bílnum var ekið af bílstjóra Steingríms.

Við höfum ekki upplýsingar hvort Steingrímur keypti bílinn á ráðherrakjörum.

Oldsmobile bíllinn var þó einnig notaður áfram, eða eins og sagði í svari til Pressunnar, sem birtist árið 1991, „notuð til að létta af bifreið ráðherrans verkefnum og til einstakra ferða“.

Myndin er af sambærilegum jeppa og Steingríms.

Umfjöllun um fleiri ráðherrabíla má finna í blaðinu EV - Bílar sem kom út í síðustu viku. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.