Knattspyrnudeild Breiðabliks hagnaðist um 157 milljónir króna á árinu 2022. Til samanburðar hagnaðist deildin um 47 milljónir króna árið áður. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Deildin fékk 206 milljón króna gjöf á árinu, en við andlát Guðmundar Eggerts Óskarssonar arfleiddi hann deildina stóran hluta eigna sinna. Guðmundur er einn af stofnendum Breiðabliks og starfaði fyrir félagið um árabil, meðal annars sem gjaldkeri. Þá var hann gerður að sérstökum heiðursfélaga Breiðabliks árið 1990.

Við gjöfina jukust tekjur vegna framlaga og styrkja um rúmar 200 milljónir á milli ára, fóru úr 90 milljónum í 295 milljónir. Í skýrslu stjórnar segir að gjöfin hafi verið sett í sérstakan sjóð sem notaður verði til góðra verka. Allar úthlutanir úr sjóðnum þurfi að bera undir stjórn.

Heildarvelta knattspyrnudeildarinnar jókst um tæpar 230 milljónir á milli ára, fór úr 673 milljónum í 902 milljónir króna.

Rekstragjöld deildarinnar námu 746 milljónum króna á síðasta ári. Þar af nam kostnaður vegna þjálfunar, leikmanna og yfirstjórnar 530 milljónum króna á árinu.

Seldu leikmenn fyrir 117 milljónir

Félagsskiptatekjur knattspyrnudeildar Breiðabliks jukust um tæpar 50 milljónir á milli ára, fóru úr 70 milljónum árið 2021 í 117 milljónir árið 2022.

Í karlaliði Breiðabliks var talsvert um stór félagsskipti. Árni Vilhjálmsson samdi við franska B-deildarliðið Rodez í byrjun árs 2022. Ísak Snær Þorvaldsson, markahæsti leikmaður liðsins á síðasta tímabili, var seldur til norska úrvalsdeildarliðsins Rosenborg, fyrir um 40 milljónir króna.

Galdur Guðmundsson var einnig seldur á árinu til Kaupmannahafnar. Samkvæmt Herði Snævari Jónssyni, sparkspekingi og ritstjóra 433.is, var Galdur seldur á hærri upphæð en sem nemur kaupverðinu á Ísaki Snæ.

Kvennalið Breiðabliks seldi einnig fjölmarga leikmenn til erlendra félagsliða. Þeirra á meðal er Agla María Albertsdóttir sem var seld til Hacken í Svíþjóð og Selma Sól Magnúsdóttir sem samdi við Rosenborg.

Ísak Snær Þorvaldsson var seldur til Rosenborg á síðasta ári. Talið er að kaupverðið hafi numið 40 milljónum króna.
© Hákon Pálsson (Hákon Pálsson)

Árið 2022 var árangursríkt hjá knattspyrnudeild Breiðabliks. Karlaliðið vann sinn annan Íslandsmeistaratitil með nokkrum yfirburðum og stóð sig með prýði í Evrópukeppni.

Þá lenti kvennalið Breiðabliks í öðru sæti Bestu deildarinnar og komst í úrslit Mjólkurbikarsins.

Sjö milljónir til umboðsmanna

Verðmæti leikmanna knattspyrnudeildar Breiðabliks jókst talsvert á milli ára, fór úr 23 milljónum árið 2021 í 36 milljónir 2022. Eigið fé félagsins fór úr 75 milljónum í 234 milljónir á milli ára, einkum vegna gjafar Guðmundar Óskarssonar.

Þá greiddi deildin 6,9 milljónir króna til umboðsmanna á árinu 2022.