„Ég er svo margt en ég er þó alltaf að reyna að vera betri í dag en í gær, með misgóðum árangri. En ég veit þó fyrir víst að ég er mamma Emanuels og Andreu Alexu og eiginkona Emils Hallfreðssonar,“ segir Ása María þegar hún er beðin um að lýsa sjálfri sér.

Árið 2018 stofnaði Ása fyrirtækið sitt Olifa sem hún segist elska mikið. Hún hleypur mikið, sér til yndisauka og segir stundum að hlaup á dag komi lífinu í lag.

Ása María er næsti viðmælandi í liðnum „Draumafríið“.

Ása María og Emil eiginmaður hennar.
Ása María og Emil eiginmaður hennar.

Ertu dugleg að taka þér frí og ferðast?

Ég get ekki sagt það þar sem við erum mikið bundin við vinnu og skóla yfir veturinn. Börnin mín eru í ítölskum grunnskólum og það er bara ekki í boði að taka þau úr skólanum yfir veturinn. Svo er Emil maðurinn minn einnig bundinn fótboltaklúbbnum sínum og þar er ansi lítið um frí 11 mánuði ársins.

En þegar færi gefst eins og t.d. á sumrin að þá gerum við okkar besta og skoðum heiminn saman. Lífið okkar á Ítalíu er þó í nærandi takti og njótum við hversdagsins eins og við getum.

"Við elskuðum svo líka að elda með innfæddum og njóta fallega hráefnisins úr sveitinni."
"Við elskuðum svo líka að elda með innfæddum og njóta fallega hráefnisins úr sveitinni."

Hvað er þitt uppáhalds frí hingað til?

Ég held að Puglia á S – Ítalíu standi upp úr hingað til.

Fyrir þá sem ekki þekkja til að þá er Puglia hællinn á stígvélinu / Ítalíu. Héraðið hitti mig beint í hjartastað fyrst fyrir fimm árum síðan og hefur hugurinn og hjartað leitað þangað síðan.

Við fjölskyldan kíktum til Puglia í sumar og áttum alveg yndislegan tíma saman þar sem við nutum þess að bara vera, hlaupa, keyra um sveitina, skoða, fræðast um fallega staði og njóta yndislegrar náttúrunnar. Við elskuðum svo líka að elda með innfæddum og njóta fallega hráefnisins úr sveitinni.

Ég nýtti svo aðeins tækifærið og sinni platonsku ástinni, heimsótti ólífuolíu og tómatframleiðendur okkar og kíkti á mögulega nýja samstarfsaðila. Gerist bara ekki betra í mínum huga.

Draumurinn að fara til Japan.
Draumurinn að fara til Japan.

Hver er drauma áfangastaðurinn?

Við erum alltaf á leiðinni til Japan og þegar Emil hættir að spila (hvenær sem það svo sem verður...) að þá gerum við ráð fyrir að ferðast loksins þangað.

Hver er drauma félagsskapurinn í fríið?

Emil og börnin mín. Þau eru alveg einstaklega ljúfur og skemmtilegur félagsskapur og alltaf stutt í gleði, hlátur og ævintýri.

Ása skemmtir sér best þegar hún fær að borða local mat.
Ása skemmtir sér best þegar hún fær að borða local mat.

Lýstu hinum fullkomna degi í fríinu þínu.

Það er algjört grundvallaratriði að stunda góða hreyfingu í fríinu, þannig byrja á góðu hlaupi og teygjum. Svo er alltaf viðeigandi að blanda smá fróðleik/þekkingu um staðhætti inn í prógrammið til að kynnast svæðinu og læra eitthvað nýtt, bæði um svæðið og menningu fólksins.

Að finna gott kaffihús og ræða aðeins lífið og tilveruna er svo alltaf góð stund. En svo skemmti ég mér best þegar ég fæ að borða local mat, en ég er alltaf forvitin um local hráefni og hvaða diska maður „eigi“ að smakka og njóta. Og njóta þeirra þó stundum komi þeir manni spánskt fyrir sjónir.