Einungis tveimur árum eftir að hafa slegið met sem dýrasta heimili á Las Vegas svæðinu hyggst eigandi hússins selja eignina aftur fyrir um þriðjungi hærra verð. Wall Street Journal greinir frá og birtir myndir af eigninni. Fleiri myndir af húsinu má finna hér.

Anthony Hsieh, stofnandi LoanDepot, keypti hið tæplega 1.400 fermetra hús í afgirtu hverfi í borginni Henderson, í Navada fylki, sem er um 16 kílómetrum suðaustan af aðalgötu Las Vegas.

Auðæfi Anthony Hsieh eru metin á 2,6 milljarða dala samkvæmt Forbes
Auðæfi Anthony Hsieh eru metin á 2,6 milljarða dala samkvæmt Forbes
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hsieh keypti húsið af fasteignaþróunarfélaginu Blue Heron fyrir 25 milljónir dala eða um 3,5 milljarða króna í júní 2021, tveimur mánuðum eftir að byggingaframkvæmdum lauk.

Eftir kaupin bað auðjöfurinn Blue Heron um að stækka húsið með viðbótar skrifstofuhúsnæði, setustofum, bílageymslum og eldhúsi fyrir brytann. Húsið er á þremur hæðum, með tvær sundlaugar við í stórri stofu, með vínkjallara og þakið 300 sólarpanelum svo eitthvað sé nefnt.

Hsieh hefur sett eignina aftur til sölu og er ásett verð nú um 34 milljónir dala eða um 4,8 milljarða króna. Hann ætlaði að nýta húsið sem sitt annað heimili en endaði á að leigja húsið til fasteignaþróunarfélagsins sem sýningareign fyrir tilvonandi viðskiptavini. Hann var þó áfram með aðgang að fasteigninni þegar hann heimsótti svæðið.

Hsieh hyggst selja húsið þar sem hann hyggst byggja enn stærra hús með Blue Hermon.