Ragnhildur Þóra Ágústsdóttir mun á föstudaginn opna einkasýninguna Fögur fyrirheit í Listval að Hverfisgötu 4. Hún er fædd og uppalin í Stykkishólmi en býr nú og starfar á Seltjarnarnesi.

Hún útskrifaðist frá Roger Williams University í Bandaríkjunum árið 2002.

Í verkum sínum fangar Ragnhildur Þóra Ágústsdóttir blæbrigði vatnslitarins af einstakri nákvæmni og tilfinningu fyrir viðfangsefninu þar sem íslenskir fuglar eru í aðalhlutverki. Hún vinnur verk sín með vatnslitum, gouache og kaffi á pappír en vatnsliturinn er krefjandi miðill sem tekur langan tíma að ná tökum á.

Ragnhildur dregur einnig örfínan pensilinn eftir pappírnum í verkum sínum með ýtrustu nákvæmni þar sem engin mistök eru leyfð.

Fuglaverk Ragnhildar eiga sér fáar hliðstæður í samtímanum og segja má að þau stingi í stúf við flest það sem er að gerast í listheiminum í dag. Í verkum hennar felst ákveðið endurlit á fortíðinni og fagurfræði hennar þar sem hún sækir viðfangsefni og aðferð til náttúruvísinda- og listamanna 19. aldar. Má þar helst nefna fuglamyndir náttúrufræðingsins, teiknarans og skáldsins Benedikts Gröndal (1826-1907) og enska fuglafræðingsins John Gould (1804-1881).

Fuglar í verkum Ragnhildar hafa yfirbragð þjóðartáknsins og eiga það sameiginlegt að hafa með einhverjum hætti verið einkennisfuglar Íslands og eiga sér fastan sess í íslenskri alþýðumenningu og þjóðtrú.

Fálkinn tengist þjóðernisbaráttu Íslendinga og var um tíma þjóðartákn Íslands. Með konungsúrskurði frá 3. október 1903 var ákveðið að skjaldarmerki Íslands skyldi vera „hvítur fálki með bláum grunni“.

Hinn svipmikli og tígurlegi fálki sem birtist með endurteknum hætti í sýningarrýminu er byggður á fálka skjaldarmerkinu. Talið er að fálkamerkið eigi enn dýpri rætur í íslenskri menningarsögu, eða allt aftur til skjaldarmerkis Lopts ríka Guttormssonar (1375-1432) sem var íslenskur höfðingi, sýslumaður, hirðstjóri og riddari á 15. öld. Fálkamerkið má sjá víða í almannarýminu og var um tíma yfir dyrum Alþingishússins og er enn yfir dyrum Safnahússins við Hverfisgötu.