Jóhann Berg Guðmundsson er langlaunahæsti íslenski atvinnumaðurinn samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Jóhann Berg leikur með Burnley í ensku úrvalsdeildinni og er með um 580 milljónir í árslaun að því er kemur fram í tímaritinu Áramót, sem kemur út í fyrramálið. Netútgáfa blaðsins verður opin fyrir áskrifendur kl. 19.30 í kvöld.

Burnley vann sér aftur sæti í ensku úrvalsdeildinni sl. vor og hefur Jóhann Berg komið talsvert við sögu í leikjum liðsins á keppnistímabilinu. Burnley hefur átt erfitt uppdráttar og er sem stendur í fallsæti. Liðið mun án efa róa lífróður til að halda sæti sínu í úrvalsdeildinni.

Aron Einar Gunnarsson er næst launahæsti íslenski atvinnumaðurinn samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Aron Einar er með um 360 milljónir króna í árslaun hjá Al Arabi í Katar.

Aron Einar hefur leikið síðustu fjögur ár með Al Arabi og verið fastamaður í liðinu. Hann framlengdi samning sinn við katarska félagið síðastliðið sumar. Aron er 34 ára og á að baki yfir 100 landsleiki fyrir Ísland.

Rúnar Alex Rúnarsson, markvörður og leikmaður Arsenal, er í þriðja sæti með um 300 milljónir króna í árslaun. Hann hefur fengið fá tækifæri með Arsenal og hefur verið í láni hjá belgíska liðinu OH Leuven, Alanyaspor í Tyrklandi og nú á þessu tímabili hjá Cardiff í ensku Championship-deildinni þar sem hann hefur fengið talsvert að spila að undanförnu.

Í tímaritinu Áramótum er listi yfir 40 launahæstu atvinnumennina. Hér að neðan má sjá fimm launahæstu:

  1. Jóhann Berg Guðmundsson Burnley um 580 m.kr.
  2. Aron Einar Gunnarsson Al Arabi um 360 m.kr.
  3. Rúnar Alex Rúnarsson Arsenal (Cardiff í láni) um 300 m.kr.
  4. Hákon Arnar Haraldsson Lille um 250 m.kr.
  5. Arnór Sigurðsson Blackburn um 210 m.kr.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Blaðið kemur út í fyrramálið en netútgáfa fyrir áskrifendur verður birt í kvöld.