Í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, er fjallað ítarlega um tónlistarkonuna Laufeyju Lín Jónsdóttur. Í greininni er m.a. rætt við Kristjönu Stefánsdóttur, einni fremstu djasssöngkonu landsins, sem hrósar Laufeyju ekki aðeins fyrir tónlistina hennar heldur einnig fyrir að halda vel utan um viðskiptahliðina með teyminu sínu.

Hún nefnir meðal annars góðan árangur í miðlun efnis til almennings og ákvarðana í tengslum við útgáfu- og dreifingarsamninga.

„Hún er bara „business-kona“. Hún samdi ekki af sér og á allan réttinn sjálf,“ segir Kristjana.

Árið 2021 gerði Laufey plötusamning við AWAL (Artists Without a Label), sem býður völdum upprennandi tónlistarmönnum þjónustu við dreifingu og markaðssetningu.

AWAL, sem Sony Music keypti fyrir tveimur árum síðan, leitast eftir að bjóða tónlistarmönnum sínum samninga sem fara ekki fram á að þeir afsali sér réttinum sínum. Fyrir vikið heldur Laufey áfram á útgáfurétti (einnig kallaður master-réttur) laga sinna, sem er ekki sjálfsagt í tónlistarheiminum.

Laufey með seinni breiðskífuna sína Bewitched sem kom út í haust.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Aldrei séð annan eins veldisvöxt

Sigtryggur Baldursson, framkvæmdastjóri Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN), bendir á að master-rétturinn sé það sem stóru alþjóðlegu útgáfufyrirtækin hafa reynt að kaupa upp í stórum stíl á síðustu árum – oft fyrir himinháar fjárhæðir. Útgáfurétturinn er sá réttur sem streymisveitur á borð við Spotify greiða rétthöfum tónlistar hvað mest fyrir á hvert streymi eða niðurhal viðkomandi tónlistar.

Áhugavert verði að fylgjast með hvað Laufey gerir í þessum efnum á komandi árum og hvort hún ákveði að framselja sín master-réttindi eða ekki.

Sigtryggur lýsir Laufeyju sem náttúrubarni og frumkvöðli þegar kemur að samfélagsmiðlum og það hafi til að mynda nýst henni vel í að koma sér á framfæri. Í byrjun Covid-faraldursins byrjaði hún að búa til litlar klippur af sér að syngja bandarísk djasslög, spila á selló og fleira. Það leiddi af sér að hún var komin með stóran hóp fylgjenda á samfélagsmiðlum áður en hún samdi við umboðsskrifstofuna Foundations Artist Management fyrir um 2-3 árum síðan.

Sigtryggur Baldursson, framkvæmdastjóri Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN).
© Árni Sæberg (M Mynd/Árni Sæberg)

Fjöldi mánaðarlegra hlustenda Laufeyjar á Spotify er í dag í kringum yfir 25 milljónir talsins. Sigtryggur segist ekki muna eftir öðrum eins veldisvexti hjá nokkrum öðrum íslenskum tónlistarmanni. Varðandi næstu skref Laufeyjar telur hann henni alla vegi færa og að hún sé á leiðinni að verða „megastjarna“.

„Það er ekki alltaf sem streymistölur sem þessar skila sér í beinni línu í það sem við köllum þátttöku aðdáenda, þ.e. hvort aðdáendur mæti á tónleika, kaupi vörur og annað slíkt. Í tilviki Laufeyjar þá virðist vera nokkuð skýr fylgni þarna á milli,“ segir Sigtryggur og vísar á hið uppselda tónleikaferðalag hennar í Bandaríkjunum næsta vor.

Ítarleg umfjöllun um Laufeyju birtist í Áramótum, sem kom út á dögunum. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér. Þar er m.a. rætt nánar við Sigtrygg og Kristjönu.